Helgi Jónas: Vorum tilbúnir í slag

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

„Kraftur og liðsheild skóp þennan sigur. Menn voru tilbúnir í slag,” sagði hinn líflegi þjálfari Grindvíkinga, Helgi Jónas Guðfinnsson, eftir leik en hann leyfði sér aldrei þessu vant að brosa. Þó ekki of mikið enda er enn eitt mikilvægt skref eftir hjá deildarmeisturunum.

„Þetta áhlaup Þórs í upphafi seinni hálfleiks var líklega það besta sem gat komið fyrir okkur á þeim tímapunkti. Sem betur fer kom það ekki seinna í leiknum. Við höfðum tíma til þess að girða okkur í brók. Við gerðum það og rúmlega það. Ég veit ekki hvort löngunin er meiri hjá okkur en þeim. Við reynum að undirbúa okkur eins vel fyrir þessa leiki og við mögulega getum. Við löguðum mikið hér í kvöld frá því í síðasta leik og við verðum að gera enn betur í næsta leik. Kannski var löngunin meiri í kvöld en við verðum að sýna það á sunnudaginn að okkur langi í titilinn,” sagði Helgi Jónas.

Grindvíkingar hafa átt það til í vetur að detta niður á lágt plan. Hefur liðið lært af því?

„Við höfum fengið nokkrar lexíur í vetur og sú síðasta var gegn Stjörnunni er við vorum komnir 2-0 yfir. Þá var hugarfarið og nálgunin fyrir þriðja leikinn léleg. Ég ætla rétt að vona að menn hafi lært af því og ég finn það hjá strákunum að við ætlum ekki að láta þetta gerast aftur.”

Viðtal: Vísir.is