Helgi Jónas góður í því að fela púlið

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Eitt lið hefur borið höfuð og herðar yfir önnur það sem af er tímabilinu í körfunni. Grindavík hefur unnið alla fjórtán leiki tímabilsins, sjö í deild, sex í deildarbikar og Meistarakeppni KKÍ þar sem Páll Axel Vilbergsson skoraði eftirminnilega sigurkörfu. Páll Axel hefur tekið að sér nýtt hlutverk í vetur og spilar nú sem sjötti maður með góðum árangri.

„Við erum alveg niðri á jörðinni fullmeðvitaðir um það að við erum ekki búnir að vinna neitt ennþá. Liðsvörnin okkar er mjög öflug en við erum búnir að vera að vinna í henni í fyrra og svo hefur verið framhald á því á þessu ári,” segir Páll Axel.

Helgi Jónas Guðfinnsson er á sínu öðru ári með Grindavíkurliðið og varnarleikurinn er orðinn aðall liðsins enda er liðið aðeins að fá á sig 71,4 stig í leik í Iceland Express deildinni.

„Helgi breytti miklu í varnarleiknum, öllum áherslum og öllu því sem tengist liðsvörn. Hann breytti þessu töluvert og kom inn með ákveðna hugmyndafræði um varnarleik. Það er greinilega að skila sér,” segir Páll Axel.

Grindvíkingar hafa verið með sterkt lið undanfarin ár en ekki unnið Íslandsmeistaratitilinn í fjórtán ár. „Við erum búnir að vera í keppni um þetta í mörg ár og hefur oft vantað aðeins upp á. Við erum búnir að taka einhverja bikarmeistaratitla en höfum alltaf ætlað okkur meira. Það er alltaf hugur í okkur að vinna og það hefur ekkert breyst,” segir Páll Axel og það er að heyra á honum að það sé ekki búið að reyna nógu mikið á liðið til þessa í vetur.

„Leikjaprógrammið okkar hefur verið í auðveldari kantinum til þess að byrja með en eins og deildin hefur verið að spilast hafa liðin verið að reyta stig af hverju öðru. Við höfum verið að halda haus þrátt fyrir enga sérstaka spilamennsku og höfum verið að klára okkar leiki. Ég vil alveg hrósa okkur fyrir það að þótt spilamennskan hafi ekkert verið neitt hundrað prósent erum við að klára okkar leiki,” segir Páll Axel.

Hann nefnir KR-leikinn sem dæmi, en Grindvíkingar fóru þá í DHL-höllina og niðurlægðu Íslandsmeistarana með 85-59 sigri. „KR-ingar áttu mjög slæman dag og þeir hittu mjög illa. Ég er ekki tilbúinn að samþykkja það að við höfum verið eitthvað frábærir í þessum leik. Við komum reyndar tilbúnir í leikinn og það er eitthvað sem við höfum ekki verið að gera mikið af í vetur,” segir Páll Axel.

Helgi Jónas var ekki tilbúinn að láta sína menn slaka á í leiknum á móti KR og var að taka reiðiköstin á sína menn þótt munurinn væri mikill. „Hann er keppnismaður og búinn að vera keppnismaður í mörg ár. Hann er búinn að vera lengi í þessum bransa og það er bara flott mál að hann sé á bakinu á mönnum. Hann gerir kröfur um ákveðna spilamennsku og um ákveðinn árangur. Hann vill að menn leggi sig fram og skili ákveðnum hlutverkum. Það er bara allt í lagi,” segir Páll Axel.

Helgi Jónas er einkaþjálfari og það er fer ekkert á milli mála að hans menn eru í frábæru formi. „Ég er búinn að vera lengi í bransanum og er búinn að fara á nokkrar æfingar hjá mörgum þjálfurum. Hann er með svolítið öðruvísi áherslur varðandi líkamsþjálfun, sem mér finnst nokkuð gott. Æfingar eru byggðar upp á mjög skemmtilegan hátt og eru svolítið öðruvísi en maður hefur gengið í gegnum. Hann er góður í því að fela púlið og setur það í boltaæfingar og spil,” segir Páll.

Páll Axel er að skora 11,7 stig að meðaltali á 24,2 mínútum en Grindavíkurliðið er að vinna þær mínútur sem hann spilar að meðaltali með 16,1 stigi. Hann er efstur í plús og mínus í deildinni, sem þýðir að það gengur best með hann inni á vellinum af öllum leikmönnum deildarinnar. Ólíkt fyrri tímabilum er Páll Axel nú að koma inn af bekknum í stað þess að vera í byrjunarliðinu.

„Ég kann ágætlega við þetta. Ég hef tekið tímabil þar sem ég hef skorað mikið og er að leiða liðið í ákveðnum tölfræðiþáttum. Mér finnst ég samt vera að spila betur núna en ég hef gert í mörg ár. Hlutverkið mitt hefur breyst aðeins, við erum komnir með meiri breidd og betri leikmenn. Það er ekkert atriði að byrja leik en það er miklu meira atriði að geta klárað hann,” segir Páll Axel, en hann var með 22 stig á 17 mínútum í sigri á Haukum í Lengjubikarnum á mánudaginn.

„Sóknarleikurinn sem Helgi innleiddi fyrir þetta tímabil hentar mér sérstaklega vel, svona flæðandi sóknarleikur þar sem þarf að lesa leikinn svolítið,” segir Páll Axel. Hann var meiddur í byrjun tímabilsins og það þróaðist út í að hann byrjaði að koma inn af bekknum.

„Það er ágætt að ég haldi áfram að anda ofan í hálsmálið á þeim sem eru byrjunarliðsmenn í liðinu. Ef menn standa sig ekki er ég alltaf tilbúinn,” sagði Páll Axel að lokum.

Gengi Grindavíkur með Pál Axel inni á:

86-80 sigur á Keflavík +17 (Páll Axel skoraði 16 stig sjálfur)
95-76 sigur á Fjölni +10 (5 stig)
87-73 sigur á ÍR +21 (10 stig)
85-65 sigur á Tindastól +16 (15 stig)
83-73 sigur á Val +19 (14 stig)
98-74 sigur á Haukum +12 (11 stig)
85-59 sigur á KR +18 (11 stig)

Páll Axel inni á vellinum (samtals):
171 mínútur og 5 sekúndur: Grindavík +113

Páll Axel á bekknum:
108 mínútur og 55 sekúndur: Grindavík +6

Umfjöllun: Vísir.is