Helgi Dan Steinsson í ítarlegu viðtali í Víkurfréttum

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Helgi Dan Steinsson, PGA golfkennari Golfklúbbs Grindavíkur, var í ítarlegu viðtali í síðasta tölublaði Víkurfrétta. Helgi hefur spilað golf frá 6 ára aldri og er áttfaldur klúbbmeistari GL ásamt því að hafa tekið þátt í stórmótum hérlendis og í landsliðsverkefnum erlendis. Öll golfkennsla hjá GG er í höndum Helga og heldur hann utan um barna- og unglingastarf hjá klúbbnum.

Við birtum hér hluta úr viðtalinu, sem má lesa í heild sinni á Vf.is:

Frábært að Grindvíkingar eigi svona flottan golfvöll

„Húsatóftavöllur í Grindavík er einhver skemmtilegasti golfvöllur á landinu. Yfirleitt kemur hann vel undan vetri enda liggur hann við sjóinn. Það að Grindvíkingar skuli eiga svona golfvöll er algjörlega frábært. Þetta er lítið bæjarfélag með fáa klúbbmeðlimi en að mínu mati með einn besta og skemmtilegasta völl landsins,” segir Helgi Dan Steinsson, golfkennari hjá Golfklúbbi Grindavíkur.

Skagamaðurinn Helgi Dan Steinsson tók í fyrravor við sem golfkennari við Golfklúbb Grindavíkur. Það var svo núna í sumar, á sjálfan þjóðhátíðardaginn, 17. júní, að hann útskrifaðist sem PGA golfkennari frá PGA golfkennaraskólanum á Íslandi og er því með full réttindi sem PGA kennari. Helgi hefur komið víða við á sínum golfferli, verið í landsliði Íslands ásamt því að vera sá sem oftast hefur orðið klúbbmeistari Golfklúbbsins Leynis á Akranesi, alls átta sinnum. Hann hefur einnig orðið klúbbmeistari Golfklúbbs Grindavíkur tvö síðastliðin ár. Þá á Helgi vallarmet af hvítum teigum í Vestmannaeyjum sem er 63 högg eða sjö undir pari. Það vallarmet setti Helgi árið 2002 þegar hann sigraði í móti á íslensku mótaröð þeirra bestu í Vestmannaeyjum.

Hvernig vildi það til að þú ert orðinn golfkennari í Grindavík?

„Það vildi nú þannig til að ég var plataður í klúbbinn í Grindavík til að spila. Ég hafði nánast eingöngu spilað fyrir Golfklúbbinn Leyni, fyrir utan eitt til tvö ár í Golfklúbbi Suðurnesja og var byrjaður í PGA náminu þegar vinur minn úr Grindavík, Davíð Arthur, hálf plataði mig til að koma og spila með þeim. Ég hef ekki séð eftir því. Fljótlega bauðst mér svo að taka að mér golfkennslu við klúbbinn og hef gengt því starfi í um tvö ár núna.”

Nú hefur þú verið félagi í Golfklúbbnum Leyni á Akranesi sem og í Golfklúbbi Suðurnesja, hvernig finnst þér golfvöllurinn í Grindavík koma út í samanburði við þá golfvelli og aðra 18 holu velli á Íslandi?

„Mjög vel,” segir Helgi. „Golfvöllurinn í Grindavík er vissulega styttri en aðrir 18 holu golfvellir en á móti kemur að hann getur verið ansi erfiður, sérstaklega ef vindur blæs. Það er mikið um staðsetningargolf en hann býður upp á þann möguleika að taka áhættu og þú getur verið verðlaunaður fyrir það en hann er líka fljótur að refsa ef maður er ekki á boltanum.”

Golfið frábært fjölskyldusport

Helgi segir að það sé engin hópur eða aldursflokkur framar öðrum sem sé skemmtilegast að kenna. Svo lengi sem nemendur eru áhugasamir, vilji læra og verða betri kylfingar, sé gaman að kenna því. „Það skemmtilega við golfíþróttina er að hana geta allir stundað og allir keppt við alla. Forgjöfin virkar þannig að byrjendur geta keppt við lengra komna og afreksmenn geta keppt við þá sem eru styttra á veg komnir. Það gerir það að verkum að það geta allir farið saman á völlinn að spilað þó fólk sé á ólíkum aldri og ólíku getustigi. Golfið er þar af leiðandi frábært fjölskyldusport.

Hvernig er aðstaða til æfinga í Grindavík?

„Aðstaða til æfinga mætti vera betri en auðvitað verður maður að gera sér grein fyrir því að það er ekki hægt að gera allt í einu. Í Grindavík er verið að vinna að því að klára golfvöllinn sem hefur nýlega verið stækkaður í átján holur og gera alla aðstöðu í kringum völlinn betri. Fyrir börn er íþróttastarfið í Grindavík til algjörrar fyrirmyndar og börnum hefur fyrir vikið gefist kostur á því að kynnast golfíþróttinni í meira mæli.”

Frábær íþróttastefna hjá Grindavíkurbæ

Að sögn Helga hefur orðið mikil fjölgun í hópi yngstu kylfingana í Grindavík og segir hann að það sé sérstaklega gaman að kenna þeim. Krakkarnir séu mjög áhugasöm og viljug að læra og vegna frábærrar íþróttastefnu sem rekin er hjá Grindavíkurbæ séu þau oft að koma beint af fótboltaæfingum í takkaskóm á golfvöllinn. Helgi minnist á það að í sumar var í fyrsta skipti í langan tíma leikið í unglingaflokki í meistaramóti klúbbsins þar sem átta drengir spiluðu tuttugu og sjö holu golfmót á þremur dögum þar sem sá elsti var ellefu ára. „Þeir spiluðu frábærlega og ekki verður langt þar til við sjáum þessa stráka spila á unglingamótaröðum hérlendis,” segir Helgi.

Mjög björt framtíð hjá Golfklúbbi Grindavíkur

Helgi er mjög bjartsýnn á framtíð Golfklúbbs Grindavíkur, enda margt mjög áhugavert þar í vændum. „Það er sannarlega björt framtíð hjá golfklúbbnum. Hér hefur verið unnið frábært starf síðastliðin ár. Frábær og flottur golfvöllur er óðum að verða enn betri, flatirnar hérna er með þeim bestu á landinu og kylfingarnir sem og allir þeir sem stjórna eru mjög áhugasamir þannig að ég er mjög bjartsýnn á framtíðina hér.”

Texti og mynd: Víkurfréttir