Hector Harold sendur heim

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Lið Grindavíkur í Dominosdeild karla er án erlends leikmanns þessa dagana, en Hector Harold fékk reisupassann núna fyrir helgi. Hector sem er léttur framherji að upplagi var fengin til Grindavíkur til að leysa stöðu miðherja en sú tilraun gekk ekki upp. Í þeim þremur leikjum sem hann lék með Grindavík í Lengjubikarnum var hann aðeins með 8 stig að meðaltali í leik og tæp 5 fráköst. Grindvíkingar hafa því ákveðið að endurnýja miðann sinn í Kanalottóinu svokallaða og leita nú að nýjum leikmanni en deildin hefst eftir viku.

Karfan.is greindi frá málinu:

“Grindvíkingar eru komnir á byrjunarreit svo til í kanamálum sínum en á föstudag var Hector Harold sendur heim en hann stóðst alls ekki þær væntingar sem til hans voru gerðar. “Já það er rétt við þökkuðum honum pent fyrir sitt framlag sem var ekki í þeim flokki sem við ætluðumst til.” sagði Gauti Dagbjartsson hjá þeim Grindvíkingum í samtali við Karfan.is

Grindvíkingar eru sum sé komnir á fullt í að leita af nýjum manni. “Við höfðum meðal annars samband við Terrence Watson sem var hjá Haukum en það virðist ekki vera að ganga upp. Við erum rólegir í þessu og ætlum okkur að finna góðan mann.” sagði Gauti ennfremur.”

 

Mynd: Vermont Athletics.