Ólafur Ólafsson leikmaður Grindavíkur í körfubolta eða Óli Óla eins og hann er oft kallaður sagðist hafa haft áhyggjur af því að konan sín, Katrín Ösp Eyberg færi af staði í stúkunni. Svo mikil hafi spennan verið í andrúmsloftinu í leik gærkvöldsins en Katrín er langt gengin með þeirra fyrsta barn.
Grindavík lagði Tindastól í gærkvöldi í 16.umferð Dominos deildar karla í körfuknattleik. Leikurinn fór 100 – 96 og má segja að hann hafi verið í járnum allan tímann. Ólafur Ólafsson, íþróttamaður Grindavíkur 2018 sagði í samtali við karfan.is að það væri gaman að spila körfubolta aftur. Eftir umferðina er Grindavík í sjöunda sæti deildarinnar en Tindastóll í öðru sæti.
„Það var yndislegt að spila svona, eins og við vorum að gera þetta fyrir hvorn annan. Við erum bestir þannig og þú sást hvað gerðist,“ sagði Ólafur Ólafsson í viðtali við Vísi strax eftir sigurleikinn gegn Tindastóli í gærkvöldi. „Þú sást bara hvað gerðist. Þeir skoruðu 96 stig en okkur var eiginlega slétt sama hvað þeir skoruðu mikið, við ætluðum bara að vinna og gera það saman og okkur tókst það.“
Það var ljóst að við ramman reip væri að draga í upphafi leiks. Róðurinn hefur undanfarið verið þungur hjá liði Grindavíkur en liðið sannaði það hins vegar í gærkvöldi að þegar allir skila sínu getur þá ekkert stöðvað. Sigurinn í gær gefur vonandi liðinu byr undir báða vængi í baráttunni sem framundan er.
Í samtali við Sigurbjörn Daða á vef körfunnar sagði Óli að leikgleði, samskipti og vörn hefðu skipt máli. Allir hefðu talað saman og að þeir hafi farið dýpra í sóknarleikinn. Það skipti máli að vinna saman að sigri. Hann sagðist vera bjartsýnn á framhaldið og það þurfi að byggja ofan á velgengni gærkvöldsins.
Næsti leikur er á móti Njarðvík á fimmtudaginn. Um er að ræða útileik og segir Óli að mikilvægt sé að liðið mæti tilbúið og hafi gaman.
Mynd: skjáskot af myndbandi á www.karfan.is
Hér má sjá umfjöllun Vísis um leik Grindavíkur og það sem Óli hafði um leikinn að segja í lokin.
Myndin með fréttinni er af þeim Katrínu Ösp og Ólafi þegar þau voru bæði tilnefnd sem íþróttamaður og íþróttakona Grindavíkur árið 2017. Katrín hreppti þar 3ja sætið en Ólafur var valinn íþróttamaður Grindavíkur 2017 og aftur 2018.