Gunnar og Ólafur Ingi semja við Grindavík

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Knattspyrna

Grindvíkingar sömdu á dögunum við tvo unga og efnilega leikmenn. Gunnar Þorsteinsson snýr aftur til Grindavíkur eftir að hafa leikið með ÍBV undanfarin ár og þá skrifaði Ólafur Ingi Jóhannesson einnig undir samning við félagið. 

Fréttatilkynningar frá knattspyrnudeildinni:

„Miðjumaðurinn Gunnar Þorsteinsson hefur gengið til liðs við uppeldisfélag sitt Grindavík og skrifað undir þriggja ára samning.

Hinn 21 árs gamli Gunnar hefur spilað með ÍBV undanfarin þrjú ár en samningur hans þar var að klárast.

„Eftir þrjú skemmtileg og viðburðarrík ár hjá ÍBV fannst mér kominn tími fyrir nýja áskorun. Grindavík var alltaf efst á blaði enda mitt uppeldisfélag og framundan eru afar spennandi tímar hjá félaginu,” sagði Gunnar.

„Ég vil leggja mitt af mörkum til að koma liðinu upp í Pepsideild á nýjan leik. Þá líst mér vel á þjálfarateymið og eins og allir vita er umgjörðin í Grindavík til fyrirmyndar. Einnig vil ég nota tækifærið og þakka ÍBV og Vestmannaeyingum fyrir frábær ár og óska þeim alls hins besta í framtíðinni.”

Gunnar hefur 67 deildar og bikarleiki á ferlinum og skorað í þeim tvö mörk.

Þá hefur hann leikið 17 landsleiki með yngri landsliðum Íslands og skoraði tvö mörk. Þar af hefur hann leikið fjóra leiki með U21 landsliðinu.

Gunnar lék í gegnum yngri flokkana með Grindavík en var í tvö ár í unglingaliði Ipswich Town áður en hann fór í ÍBV.

Á dögunum skrifaði Ólafur Ingi Jóhannsson einnig undir tveggja ára saming við Grindavík. Ólafur Ingi er ungur og efnilegur leikmaður sem kemur frá Keflavík.

Grindvíkingar kannast vel við föður leikmannsins en það er enginn annar en stuðningsmaður númer 1 og fyrrum leikmaður Grindavíkur, Jóhann Ármannsson (Hanni í Teigi).“