Um helgina fóru fram Reykjavík Júdó sem er liður í dagskrá Reykjavík International Games og voru þrír keppendur frá Grindavík. Mótið í ár var eitt sterkasta júdómót á Íslandi frá upphafi og voru 63 keppendur skráðir, þar af 15 erlendir. Á meðal erlendra keppenda var Ólympíumeistarinn Tagir Khaibulaev.
Grindavíkingar sem mættu til leiks voru þeir Björn Lúkas Haraldsson, Guðjón Sveinsson og Guðmundur Ingi Hammer Kjartansson sem vann til bronsverðlauna í -66 kg flokki.
Björn Lúkas keppti í -81 kg flokki. Þar voru 11 keppendur skráðir og raðaðist flokkurinn í útsláttarkeppni. Lúkas tapaði fyrstu glímunni sinni á kasti og vegna úrslita annarra keppenda í flokknum fékk hann enga uppreisnarglímu.
Guðjón Sveinsson keppti í -73 kg flokki. Þar voru 12 keppendur skráðir og raðaðist flokkurinn í útsláttarkeppni. Guðjón vann fyrstu glímuna á kasti en tapaði annarri á sama hátt. Hann fékk uppreisnarglímu en tapaði henni einnig á kasti.
Guðmundur keppti í -66 kg flokki. Þar voru 6 keppendur skráðir og raðaðist flokkurinn í tvo þriggja manna riðla. Guðmundur vann fyrstu glímuna á armlás, en tapaði annarri á kasti en komst þó upp úr riðlinum í undanúrslit. Hann tapaði þeirri glímu á kasti, og hafnaði þar með í þriðja sæti.