,,Ég hefði viljað fá meiri út úr þessum leik og ég hefði viljað fá betri framgöngu minna manna,” sagði Guðjón Þórðarson þjálfari Grindvíkinga við Fótbolta.net eftir 1-1 jafntefli gegn Fjölni í Lengjubikarnum í gær.
,,Mér fannst vanta meiri ákefð, meiri vilja til að vinna og meira vinnuframlag hjá hverjum og einum leikmanni. Það er ekki nóg að spila einn leik vel eins og í síðustu umferð á móti Fylki og vera síðan á hálfum hraða á móti Fjölni.”
,,Þetta er eitthvað sem menn verða að laga fyrr en síðar því að það styttist óðfluga í mót. Hugarfarið er ekki stillt á að vinna einhverja leiki í röð og hugarfar taparans er ríkjandi hjá alltof mörgum.”
Grindvíkingar eru í leit að liðsstyrk og Guðjón vonast til að sú leit beri árangur á næstunni.
,,Við höfum verið að skoða en höfum ekki verið nógu sáttir með það sem hefur verið í boði. Við erum að vonast til að það detti inn á næstu dögum eða vikum.”