Grindavíkurkonur fengu heldur betur fljúgandi start í B-riðli 1. deildar kvenna þegar þær tóku lið Gróttu í létta kennslustund á Grindavíkurvelli í gær. Leikurinn fór rólega af stað og bæði lið gerðu sig líkleg til að skora en Grindvíkingar voru fyrri til að brjóta ísinn þegar Sashana Pete Campbell skoraði á 28. mínútu. Brustu þá allar flóðgáttir við mark Gróttu og Grindavík skoraði 8 mörk í viðbót áður en flautað var til leiksloka.
Markaskorarar Grindavíkur:
1-0 Sashana Pete Campbell (´28)
2-0 Sashana Pete Campbell (´40)
3-0 Marjani Hing-Glover (´49)
4-0 Sashana Pete Campbell (´53)
5-0 Sara Hrund Helgadóttir (´58)
6-0 Marjani Hing-Glover (´59)
7-0 Sara Hrund Helgadóttir (´64)
8-0 Dröfn Einarsdóttir (´76)
9-0 Sara Hrund Helgadóttir (´80)
Grindavík fer því taplaust af stað inní sumarið hjá báðum kynjum. Stelpurnar mæta Aftureldingu í bikarnum á mánudaginn og strákarnir taka á móti KA á miðvikudaginn.
Mynd: Linda Eshun, Sashana Pete Campbell, Emma Higging og Sara Hrund Helgadóttir, kampakátar eftir leik. Myndinni nöppuðu við af Facebook í fullkomnu leyfisleysi, en það hlýtur að vera skárra en birta 3 ára gamla mynd af yngri flokki með þessari frétt.