Grindvískur sigur í háspennuleik í Mustad höllinni

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Grindavík tók á móti nýliðum Stjörnunnar í Domins deild kvenna í dag en fyrir mót var Stjörnunni spáð 4. sæti en Grindvíkingum 6. og næst neðsta sætinu. Stjarnan hafði þó aðeins unnið einn leik af þremur fyrir daginn í dag og Grindavíkurstúlkur hafa verið að sækja í sig veðrið. Þær hafa styrkt liðið og voru taplausar í deildinni. Úr varð hörkuleikur þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í framlenginu.

Leikurinn var mjög jafn allan tímann en gestirnir fóru ögn betur af stað. Heimastúlkur létu þó ekki slá sig útaf laginu og staðan var 20-22 eftir fyrsta leikhluta. Stjarnan hélt áfram að vera skrefi á undan í sínum aðgerðum og leiddu í hálfleik, 39-44.

Grindavíkurstúlkur spiluðu hörkuvörn í þessum leik og Stjörnustúlkur töpuðu nokkrum boltum nokkuð klaufalega. Alls töpuðu þær 26 boltum í leiknum, á móti 16 töpuðum hjá Grindavík. Petrúnella stal 6 boltum, mörgum beint úr höndum andstæðinganna og Whitney Frazier var með 4 stolna. Grindvíkingum gekk illa að hemja massaðasta leikmann Dominos deildar kvenna, Chelsie Schweers, sem virtist á köflum skora að vild. Hún hefði sennilega þegið meira framlag frá liðsfélögum sínum en Stjarnan lenti í villuvandræðum undir lok leiks. Næst stigahæsti leikmaður liðsins, Ragna Margrét Brynjarsdóttir fór útaf með 5 villur þegar nokkrar mínútur lifðu enn leiks, og munaði um minna fyrir Stjörnuna. Hafrún Háldánardóttir fór sömu leið skömmu seinna og þurfti Stjarnan því að leita nokkuð djúpt á varamannabekkinn undir lok leiksins.

Leikurinn var í járnum fram á síðustu mínútu. Þegar 33 sekúndur voru eftir var staðan 71-71 og Chelsie stal boltanum af Petrúnellu, brunaði upp völlinn og setti niður skot í teignum, 71-73. Daníel Guðni tók leikhlé og teiknaði upp loka sóknina. Björg fékk í kjölfarið opinn þrist sem geigaði en Petrúnella reif niður sóknarfrástið af harðfylgi, fór í skot sem geigaði en fékk í kjölfarið 2 víti. Stáltaugarnar voru þandar til hins ítrasta en bæði vítin lágu. Chelsie fékk tækifæri til að klára leikinn fyrir Stjörnuna en hitti ekki, enda stífdekkuð, og framlenging niðurstaðan.

Það leit út fyrir í upphafi að Grindavík ætlaði bara að skora úr vítum í framlengingunni og að Stjarnan ætlaði að klára leikinn. Í stöðunni 82-84 héldu Grindvíkingar í sókn og Jeanna Sciat fékk galopið þriggja stiga skot þegar 14 sekúndur voru eftir sem rataði ofan í. Stjarnan fékk því einn séns til að klára leikinn og fengu raunar galopið færi undir körfunni en á einhvern ótrúlegan hátt brenndi Eva María Emilsdóttir af og Grindavík náði frákastinu. 85-84 sigur staðreynd í hörkuleik þar sem sigurinn hefði getað fallið með báðum liðum.

Whitney Frazier leiddi stigaskorun Grindvíkinga í dag með 31 stig, 14 fráköst og 4 stolna bolta. Hún var líka með flest framlagsstig á vellinum, 43 talsins. Petrúnella, Björg og Sjöfn koma svo næstar, allar með 11 stig.

Hjá Stjörnunni var Chelsie Schweers frábær með 30 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar. Hún er leikmaður sem gerir alla í kringum sig betri og Stjarnan datt heldur betur í lukkupottinn að fá hana til sín. Ragna Margrét Brynjarsdóttir kom næst með 17 stig og Bryndís Hanna Hreinsdóttir setti 16, þarf af 15 úr þriggja stiga skotum.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Facebook)