Grindvíkingar völtuðu yfir Keflavík í grannaslagnum

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Knattspyrna

Grindvíkingar tóku á móti botnliði Keflavíkur í Pepsi-deild karla í gær, í mikilvægum leik fyrir bæði lið. Grindvíkingar höfðu aðeins hikstað í síðustu leikjum og voru því í kjörstöðu til að rétta stefnuna af gegn lánlausum Keflvíkingum, en gestirnir voru að sama skapi á ákveðnum tímamótum með nýjan þjálfara í brúnni.

Það má segja að það hafi verið spurning um að duga eða drepast fyrir Keflvíkinga sem sást glöggt á upphafsmínútum leiksins þar sem þeir sóttu af nokkrum krafti, en eins og svo oft áður í sumar vildi boltinn ekki í markið. Keflvíkingar skoruðu síðast mark í deildinni 4. júní og varð engin breyting á því í gær.

Grindvíkingar héldu sínu striki þrátt fyrir hamagang gestanna og eftir laglegt þríhyrningsspil á 19. mínútu skoraði Will Daniels gott mark með neglu fyrir utan teiginn. Skömmu seinna, eða á 24. mínútu, braut markvörður Keflvíkinga klauflega á nýjasta leikmanni Grindavíkur, hinum öskufljóta Finna, Elias Alexander Tamburini, þegar hann var að sleppa einn í gegn. Sito fór á punktinn og skoraði örugglega í hægra hornið með föstu skoti og staðan 2-0 í hálfleik. 

Strax í upphafi seinni hálfleiks skoraði Alexander Veigar svo þriðja og síðasta mark heimamanna. Grindvíkingar stjórnuðu leiknum frá A-Ö í seinni hálfleik og Keflvíkingar náðu varla að koma við boltann á löngum stundum. Öruggur 3-0 sigur því staðreynd og liðið lyfti sér upp í 5. sætið með 20 stig eftir 13 leiki. 

Næsti leikur Grindavíkur er útileikur gegn KR mánudaginn 30. júlí.

Umfjöllun fótbolta.net um leikinn

Viðtal við Óla Stefán

Viðtal við Elias Alexander Tamburini