Grindvíkingar semja við nýjan erlendan leikmann

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Karfan.is greindi frá því í gærkvöldi að karlalið Grindavíkur í Dominosdeild karla hafi samið við nýjan erlendan leikmann, Joey Haywood að nafni. Haywood er 185 cm hár bakvörður og lék síðast í dönsku deildinni með Álaborg. Grindvíkingar hefja leik gegn Haukum á útivelli í kvöld og mun Haywood þreyta frumraun sína með liðinu í þeim leik.

Haywood þessi er fæddur í Vancouver í Kanada árið 1984 en er einnig ættaður frá Trinídad. Hann útskrifaðist úr St. Mary’s háskólanum árið 2011 og hefur síðan leikið í Kanada og Danmörku. Með Álaborg var hann stigahæsti leikmaður deildarinnar með 25 stig að meðaltali í leik, valinn í stjörnulið deildarinnar og var annar í kjörinu á leikmanni ársins.