Eins og við greindum frá í morgun var hinn bandaríski Hector Harold leystur frá störfum hjá úrvalsdeildarliði Grindavíkur í körfubolta núna á föstudaginn. Grindvíkingar sátu þó ekki með hendur í skauti og hófu strax leit að nýjum leikmanni og hafa nú þegar samið við nýjan leikmann, Eric Wise að nafni. Eric, sem er Bandaríkjamaður fæddur árið 1990 og lék áður í Ísrael er framherji, 198 cm á hæð og 110 kg. Hann mun því væntanlega þétta teiginn hressilega.
Karfan.is var að sjálfsögðu fyrst með fréttirnar:
Grindvíkingar hafa ráðið nýjan erlendan leikmann en það mun vera Eric Wise sem er 25 ára gamall framherji úr UCI háskólanum í Kaliforníu. Eric þessi spilaði með Spirou Charleroi í Belgíu síðast. Jóhann Þór Ólafsson sagði í samtali við Karfan.is að líkt og venjulega væru vonir bundnar við að Eric standi fyrir sínu. Eric mun að öllum líkindum standa vörð um teiginn hjá þeim gulklæddu þar sem hann er stór og stæðilegur (2 metrar tæpir og 100+ kg)
Von er á Eric til landsins á næstu dögum, eða um leið og öll pappírsvinna hefur farið í gegnum “mylluna”