Grindvíkingar misstu taktinn í seinni hálfleik

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Grindvíkingar heimsóttu Hauka í Schenker-höllina í gær, í síðasta leik Eric Wise sem heldur nú í víking til S-Kóreu. Ekki var mikið skorað í leiknum en staðan eftir fyrsta leikhluta var 12-15, okkar mönnum í vil. Þeir leiddu svo einnig í hálfleik, 32-37 en Haukarnir léku afar vel í seinni hálfleik meðan fátt gekk upp hjá okkar mönnum og lönduðu að lokum sigri, 75-64. 

Davíð Eldur var á staðnum og fjallaði um leikinn fyrir karfan.is:

Haukar fengu Grindavík í heimsókn í Schenkerhöllina í kvöld í 9. umferð Dominsdeild karla. Stórar fréttir bárust úr herbúðum Grindavíkur í dag er það var tilkynnt að kaninn þeirra Eric Julian Wise væri á förum til Suður Kóreu og að Guðmundur Bragason myndi fylgja honum, að vísu ekki til Suður Kóreu en frá Grindavík. Það var því stórt spurningarmerki hvernig þeir gulklæddu myndu mæta stemmdir til leiks.

Leikurinn virtist ætla hefjast með látum er Stephen Michael Madison var grimmilega neitað af Þorleifi Ólafssyni í sniðskoti sem varði skotið í drasl. Stephen tókst þó að svara í sömu mynt tveimur mínútum síðar, þó ekki eins heiftarlega og Þorleifi. Þessi atvik gáfu þó falska mynd af því sem koma skyldi því liðunum gekk ekkert að skora og voru aðeins komin 2 stig í hús eftir fjórar mínútur. Grindavík var með töluvert af töpuðum boltum og tókst ekki að skora sín fyrstu stig fyrr en eftir 5 mínútur. Ekki það að Haukar væru að standa sig eitthvað betur, aðeins búnir að skora tvær körfur sjálfir og staðan 4-2. Boltinn ekki alveg tilbúinn að detta. Það var því lítið skorað í fyrsta leikhluta sem fór 12-15. Fram að loka mínútunni voru aðeins 4 leikmenn komnir á blað, tveir hjá hvoru liði, Jón Axel Guðmundsson, Eric Julian Wise, Kári Jónsson og Stephen Michael Madison. En Ingvi Þór “ekki kalla mig litla bróðir” Guðmundsson tróð sér á blað líka með því að smella niður þrist og koma Grindavík yfir í stöðunni 12-13. Þorleifur Ólafsson slúttaði síðan leikhlutanum með sniðskoti er leiktíminn rann út.

Ingvi Þór Guðmundsson var í hörku formi og smellti niður tveimur þristum snemma í öðrum leikhluta, og þar með kominn með þrjá á aðeins fimm mínútum. Loksins var komið gott stuð í leikinn eftir það sem mætti kalla 10 mínútna upphitun liðanna. Haukar áttu í vandræðum í sóknaraðgerðum sínum en Emil Barja smellti loks niður þrist fyrir Hauka er skotklukkan rann út. Eftir skotið kræktust hann og Jón Axel Guðmundsson saman en Sigmundur Már Herbertsson tók þá á tal og sagði þeim að hætta þessari vitleysu. Emil Barja heyrði það og tók það til sín en Kristinn Marinósson heyrði það greinilega ekki þar sem hann líkamstékkaði Jón Axel illa í næstu sókn er hann slapp í gegn og var á leiðinni upp í opið sniðskot og fékk hann réttilega dæmda á sig óíþróttamannslegavillu. Grindavík voru sterkari á þessum tímapunkti og leiddu 23-30. Þá tók Finnur Atli Magnússon til sinna mála og setti tvær körfur í röð fyrir Haukanna. Gestirnir gáfu sig hins vegar ekki og héldu forystunni og leiddu í hálfleik 32-37 þar sem að Ingvi Þór Guðmundsson var stigahæstur ásamt Eric Julian Wise með 11 stig. Eric var hins vegar kominn í tvöfalda tvennu þar sem hann var líka með 10 fráköst. Hjá heimamönnum var Stephen Michael Madison með 9 stig.

Þriðji leikhlutinn var hnífjafn þar sem Grindavík svaraði öllum tilraunum Hauka til að minnka muninn og var hart barist á öllum vígstöðum. Kári Jónsson setti þá þrist fyrir Hauka sem koma þeim af stað í 10-3 kafla það sem eftir lifði leikhlutans og kom þeim yfir 50-49. Kári kórónaði sjálfur þennan kafla hjá Haukum með því að dúndra niður flautuþrist þó nokkra metra fyrir aftan miðjuna beint ofaní!

Kári átti eftir að vera magnaður í þessum leik og endaði hann stigahæstur með 21 stig og þrefalda “fernu” eða 4 fráköst, 4 stoðsendingar og 4 stolna bolta.

Þessi magnaði þristur hjá Kára kom með væna innspýtingu í leik Hauka sem sóttu grimmt. Að sama skapi slá hún Grindvíkinga aðeins útaf laginu í byrjun fjórða leikhlutans en þeir komu fljótt til baka. Haukar voru þó alltaf skrefinu á undan. Eric Julian Wise fékk dæmda á sig tæknivillu á fimmtu mínútu leikhlutans fyrir að hafa sagt eitthvað við Kristinn Jónasson er þeir voru að berjast um staðsetningu í innkasti og tók Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur hann af velli fyrir vikið og hvíldi næstu 3 mínúturnar. Mikill pirringur var í Grindvíkingum og í einni sókninni stoppuðu Jón Axel Guðmundsson og Þorleifur Ólafsson í henni miðri og fóru að rífast um staðsetningar og hvar og hvenær ætti að gefa boltann. Hjálmar Stefánsson ísaði síðan leikinn fyrir Hauka þegar hann smellti niður þrist þegar skotklukkan gall með rétt tæpa mínútu til leiksloka og kom Haukum í 72-61. Hjálmar átti flotta innkomu af bekknum og var hann með 14 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Lokatölur voru síðan 75-64 eftir einhver ósköpin af villum og vítaskotum beggja liða á loka sekúndunum.

Tölfræði

Viðtöl: