Grindvíkingar kláruðu tímabilið með trukki

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Knattspyrna

Grindvíkingar kláruðu tímabilið í 1. deild karla í knattspyrnu með glæsibrag nú á laugardaginn þegar liðsmenn Fram komu í heimsókn. Liðin höfðu í raun að engu að keppa, en þau voru hvorki á leið upp né niður, sama hver úrslitin leiksins yrðu. Það var því aðeins spilað upp á stoltið og má með sanni segja að Grindvíkingar hafi tekið það einvígi með trompi, en lokatölur leiksins urðu 7-2 Grindvíkingum í hag.

Sóknarmenn Grindvíkinga léku við hvurn sinn fingur í þessum leik. Angel Guirado Aldeguer setti þrennu, og endaði því með 5 mörk í þeim 7 leikjum sem hann lék fyrir Grindavík. Þá var Alex Freyr Hilmarsson einnig mjög öflugur í leiknum en hann lagði upp þrjú mörk ásamt því að setja tvö. Alex, sem fæddur er 1993, hefur átt mjög gott sumar fyrir Grindavík, en hann skoraði 7 mörk í 20 leikjum og lagði upp 16. Hann er núna samningslaus og ekki ólíklegt að lið í Pepsi-deildinni muni falast eftir starfskröftum hans en vonandi mun hann mæta til leiks á ný í gula búningnum að ári.

Grindvíkingar luku leik í 5. sæti 1. deildarinnar. Það er nákvæmlega sama uppskera og á síðasta tímabili og óneitanlega nokkur vonbrigði. Þjálfarar Grindavíkur hafa gefið að út að þeir séu að byggja liðið upp til framtíðar og stefna ótrauðir á úrvalsdeild. Vonandi tekst þeim að byggja á þessum árangri og halda áfram að vinna að uppbyggingu og unglingastarfi hjá Grindavík. Það þýðir ekkert að leggja árar í bát heldur horfa fram á veginn.

Grindavík 7 – 2 Fram

0-1 Brynjar Benediktsson (‘7)
1-1 Angel Guirado Aldeguer (’12)
2-1 Angel Guirado Aldeguer (’30)
3-1 Alex Freyr Hilmarsson (’35)
4-1 Magnús Björgvinsson (’44)
5-1 Angel Guirado Aldeguer (’61)
5-2 Atli Fannar Jónsson (’66)
6-2 Alex Freyr Hilmarsson (’68)
7-2 Matthías Örn Friðriksson (’82)