Grindvíkingar Íslandsmeistarar í unglingaflokki

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Strákarnir í unglingaflokki hömpuðu Íslandsmeistaratitlinum um helgina þegar þeir lögðu FSu að velli í úrslitaleik, 71-57. Titillinn er eflaust væn sárabót fyrir bikarleikinn sem tapaðist svo grátlega en sigurinn að þessu sinni var svo til aldrei í hættu. Leikurinn var kveðjuleikur Jón Axels Guðmundssonar sem heldur nú til Bandaríkjanna í nám en Jón átti mjög góðan leik, með 16 stig, 13 fráköst og 7 stoðsendingar.

Karfan.is gerði leiknum góð skil:

„Grindvíkingar eru Íslandsmeistarar í unglingaflokki karla eftir að hafa sigrað lið FSu nokkuð örugglega í úrslitaleiknum, 71:57 í Keflavíkinni í dag. Grindvíkingar voru komnir í gott forskot þá þegar í fyrri hálfleik og það forskot toppaði í 28 stigum í þriðja fjórðung.

Leikurinn hófst með látum og mikið skorað á upphafsmínútum. Jafnræði var framan af en þegar á leið hófu Grindvíkingar að slíta sig frá en þó ekki með neinum afgerandi hætti. Þó strax eftir 10 mínútna leik leiddu þeir gulklæddu með 10 stigum, 23:13 leiddir af þeim Guðmundsonum ( Jón Axel og Ingva) sem höfðu skorað helming stiga liðsins.

Grindvíkingar byggðu svo ofaná þessa forystu í öðrum leikhluta og þrátt fyrir góða baráttu hjá FSu þá voru Grindvíkingar einfaldlega sterkari á þessum fyrstu 20 mínútum leiksins og annar stór hluti sem skildu liðin var Jón Axel Guðmundsson virist ekki hafa mikið fyrir hlutunum en var þó þegar í fyrri hálfleik komin með fína línu í 12 stigum, 7 fráköstum og 5 stoðsendingum. Staðan í hálfleik var 42:25 Grindvíkinga í vil.

Grindvíkingar slökuðu lítið á klónni í þriðja leikhluta og þegar yfir lauk voru Grindvíkingar komnir í 28 stiga forystu og úrslitin nánast ráðin í leiknum og FSu þyrfti í raun á kraftaverki að halda til að eiga möguleika á sigri. Fsu náðu hinsvegar að minnka muninn niður í 20 stig um miðbik fjórða leikhluta. Lengra komust þeir FSu menn ekki í þessum leik og Grindvíkingar lönduðu nokkuð þægilegum og verðskulduðum sigri og eru Íslandsmeistarar í unglingaflokki karla 2016.

Jón Axel Guðmundsson var í algerum sérflokki í sínum síðasta leik á íslandi í bili en hann heldur til Bandaríkjana á næsta tímabili að spila með Davidson háskólanum. Jón var hársbreidd frá þrennunni en hann skoraði 16 stig tók 13 fráköst og sendi 7 stoðsendingar á félaga sína. Það dugði honum til þess að verða valinn maður leiksins í þessum leik.“

Hér að neðan má sjá upptöku frá leiknum, en leikur Grindavíkur byrjar við 6 klukkustunda markið.

Tölfræði leiksins