Grindvíkingar Íslandsmeistarar í 8. fl. kvenna

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Grindvíkingar lönduðu enn einum Íslandsmeistaratitlinum í yngri flokkum um helgina þegar stelpurnar í 8. flokki tryggðu sér titilinn hér á heimavelli. Þær sigruðu Keflavík í hreinum úrslitaleik en liðið spilaði mjög vel í vetur og töpuðu aðeins 1 leik af 20. Við óskum stelpunum til hamingju með þennan frábæra árangur, virkilega gaman að sjá hversu margir efnilegir árgangar eru að koma upp þessa dagana í Grindavík. Þjálfari liðsins er Ólöf Helga Pálsdóttir en hún var að stíga sín fyrstu skref í þjálfun í vetur. Ekki amalegt að krækja í titil í fyrstu atrennu!

Umfjöllun og mynd af Grindavík.net:

Það var frábær stemming í stúkunni og inni á vellinum þegar að Grindavík sigraði erkifjendurna úr Keflavík í hreinum úrslitaleik í æsispennandi leik sem endaði 25-23.

Bæði lið höfðu sigrað alla leiki sína nokkuð örugglega í mótinu og var spennustigið hátt þegar að liðin gengu inn á völlinn. Stuðningsmenn beggja liða byrjuðu að hvetja frá fyrstu mínútu og þau voru enn að hvetja þegar að verið var að verðlauna liðin að leik loknum. Fólk hafði orð á því að það er sjaldan jafn góð stemming í húsinu og var á leiknum. Keflavík skoraði fyrstu stiginn en Grindavíkurstúlkur voru fljótar að koma sér í gang og komust fljótt yfir og héldu forskotinu allann leikinn. Munurinn náði upp í 9 stig á tímabili en sigurinn var aldrei í hættu fyrr en á lokamínútunum þegar að Grindavík tók fljót og erfið skot, Keflavík náði að skora á móti og minnka munin í 2 stig þegar að nokkrar sekúndur voru eftir af leiknum. Það dugði þó ekki til því Grindavík hélt boltanum fram að lokamínútum og Íslandsmeistaratitillinn var í höfn.

Það er greinilegt að framtíðin er björt í körfuboltanum í Grindavík og óskum við stelpunum innilega til hamingju með frábæran árangur. Þess má til gamans geta að þær unnu 19 leiki í vetur og töpuðu aðeins einum gegn Njarðvík á síðasta móti en þær sigruðu þær með 16 stigum í úrslitatörneringunni á föstudagskvöld.