Grindvíkingar gerðu góða ferð norður í land

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Grindvíkingum líður greinilega vel í íþróttahöllinni á Akureyri en á föstudaginn unnu strákarnir sinn annan sigur þar í skömmum tíma, í þetta skiptið í Domino’s deildinni, lokatölur gegn Þórsurum 65-75. Liðin eru nú jöfn í 5.-6. sæti með 16 stig.

Thorsport.is, heimasíða Þórsara, gerði leiknum skil:

„Eftir tvo sigurleiki í röð í deildinni freistuðu Þórsarar þess að hefna fyrir tapið gegn Grindavík í bikarnum þegar þeir tóku á móti Grindvíkingum í kvöld. Leikmenn Þórs náðu sér aldrei á strik í kvöld og gerðu fjölmörg mistök og þrátt fyrir að Tryggvi Snær hafi tekið 14 fráköst og varið 9 skot dugði það skammt í kvöld.

Leikurinn byrjaði rólega en gestirnir fetinu á undan Þór og náðu snemma fjögra stiga forskoti 4-8 en um miðjan leikhlutann munaði þó ekki nema einu stigi 10-11. Þarna bættu gestirnir í og skorðu 7-12 og höfðu sex stiga forskot þegar annar leikhlutinn hófst 17-23.

Nokkurt jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta en leikhlutinn einkenndist af fjölmörgum mistökum beggja liða en nú voru það gestirnir sem gerðu fleiri. Eins og sést á tölunum var ekki mikið skorað í leikhlutanum en Þórsarar voru heldur sprækari og skoruðu 16 gegn 13 gestanna og munurinn á liðunum í hálfleik aðeins 3 stig 33-36.

Leikurinn fór rólega af stað í síðari hálfleik og eftir um fjögurra mínútna leik var munurinn á liðunum tvö stig 40-42 og allt í járnum. En hér hrökk allt í baklás hjá Þór og gestirnir gáfu í og juku forskotið jafnt og þétt. Þegar um tvær mínútur lifðu leiks var munurinn á liðunum orðin 14 stig 73-59. Á loka sprettinum gerðu Þórsarar allt til að laga stöðuna en tíu stiga tap var staðreynd þegar upp var staðið og lokatölurnar urðu 65-75.

Segja má að Þórsliðið í heild átti afar dapran dag og sigur Grindvíkinga fyllilega verðskuldaður. Segja má að þeir Tryggvi Snær og Darrel Lewis hafi verið einna skástir hjá Þór í kvöld en aðrir léku undir getu. Darrel Lewis var stigahæstur Þórs með 23 stig og 9 fráköst, Tryggvi Snær Hlinason var öflugur og skoraði 15 stig tók 14 fráköst og var með 9 varin skot. George Beamon var með 13 stig, Ingvi Rafn Ingvarsson 7, Ragnar Helgi Friðriksson 4 og Þröstur Leó Jóhannsson 3.

Hjá gestunum var Dagur Kár Jónsson stigahæstur með 22 stig, Ólafur Ólafsson 18, Ómar Örn Sævarsson 10 og þeir Lewis Clinch Jr og Þorleifur Ólafsson 8 stig hvor, Ingvi Þor Guðmundsson 5 og þeir Þorsteinn Finnbogason og Jens Valgeir Óskarsson 2 stig hvor.

Eftir leiki umferðarinnar er Þór og Grindavík jöfn í 5. – 6. sæti deildarinnar með 16 stig.”

 

Tölfræði leiksins