Grindvíkingar sitja einir á toppi Pepsi-deildar karla með 14 stig eftir góðan þolinmæðis 2-1 sigur á Fylki í gær. Gestirnir komust yfir snemma í leiknum eftir nokkurn sofandahátt í vörn Grindavíkur og eftir það var leikurinn ansi dragðdaufur alveg fram að hléi. Eitthvað hefur Óli Stefán sagt uppbyggilegt við sína menn í klefanum í hálfleik því það var eins og allt annað og ákveðnara lið mætti til leiks í seinni hálfleik.
Pressan á mark Fylkismanna var mikil og á köflum komust þeir varla útúr eigin vítateig, slíkan var pressan. Hún bar loks árangur á 62. mínútu þegar Grindvíkingar fengu augljóst víti þegar Aron Jóhannsson var straujaður niður í teignum. Varnartröllið Björn Berg Bryde steig á punktinn og skoraði örugglega úr spyrnunni, og færist nær 20 marka markmiði sumarsins, en þetta var hans annað mark í sumar.
Þrátt fyrir mörg ágæt færi var það ekki fyrr en á 88. mínútu sem Grindavík innsiglaði sigurinn. Aron Snær Friðriksson, markvörður Fylkismanna, hafði haldið þeim á lífi svo til allan leikinn en hann mátti sín lítils gegn þrumuskoti Will Daniels sem smaug í gegnum þvögu af leikmönnum og endaði í fjærhorninu.
Úrslitin þýða að Grindavík er eitt á topp deildarinnar með 14 stig en jafntefli hefði þýtt að þrjú lið hefðu deilt efstu 3 sætunum með 12 stig. Næsti leikur Grindavíkur er svo heimaleikur gegn Breiðabliki á laugardaginn, en Breiðablik er í 4. sæti deildarinnar með 11 stig, og verður það eflaust hörkuleikur.
Umfjöllun Fótbolta.net um leikinn
Viðtal við Óla Stefán, þjálfara
Viðtal við Gunnar Þorsteinsson, fyrirliða