Okkar konur fengu heldur betur að smakka á eigin meðali þegar þær heimsóttu Stykkishólm um helgina en Snæfellingar byrjuðu leikinn á stífri pressu eftir hverja körfu og komust í 12-0 áður en Grindvíkingar náðu að svara. Þetta er taktík sem Sverrir hefur beitt grimmt í vetur og hefur skilað góðum árangri gegn lakari liðum deildarinnar. Má segja að vopnin hafi snúist í höndum Grindvíkinga í þetta skiptið en vonandi læra þær einfaldlega af reynslunni og mæta sterkar til leiks í næsta leik.
Karfan.is fjallaði um leikinn:
Á þessum hressa laugardegi mættust Snæfell og Grindavík í Stykkishólmi í Dominosdeild kvenna og til að hlaupa með látum inn í leikinn þá hóf Snæfell leikinn á 12-0 og pressuðu vel eftir skorðaða körfu strax á fyrstu mínútunum. Grindavík tók sig saman og spiluðu sóknir sínar betur í gegn og fóru að ná niður körfum gegn erfiðri vörn Snæfells og minnkuðu niður í 17-9 og náðu að fylgja um tíu stigum á eftir. Snæfell leiddi svo eftir fyrsta hluta 28-15 og voru að spila hraðann bolta.
Kristen og Berglind voru að fara fyrir skori Snæfells en liðið virkaði vel samstillt og greinilega að ákveðnar í að setja vonbrigði síðustu leikja í salt. Grindavík settu þetta mest á Pálínu, Kristinu og Maríu sem kláruðu vel ef þær fengu frítt undir. Snæfell komst í 14-0 í öðrum hluta, kláruðu þar 19-0 kafla og voru einfaldlega að kála sóknarleik Grindavíkur með pressu og þær fengu ekki séns. Það ver ekki fyrr en eftir 4 mínútur að Grindavík hreyfðu við stigatöflunni og komu þá með 8 stig í röð 42-23. Snæfell leiddi í hálfleik 57-29 og var þetta orðið í raun pínlegt að og gestrisni lítil í leiknum.
Kristen McCarthy var komin með 26 stig og 7 fráköst. Hildur Sig hafði sett 10 stig og tekið 5 fráköst og gefið 5 stoðsendingar. Berglind Gunnars var með 9 stig. Hjá Grindavík var María Ben komin með 9 stig, Pálína Gunnlaugs 8 stig og Kristina King 6 stig og 5 fráköst.
Þriðji hluti byrjaði jafnari en hinir fyrri og leikurinn varð losaralegri en forysta Snæfells einkenndi það. Heimastúlkur gátu leyft cher að pústa eilítið eftir pressu fyrri hálfleiks og höfðu taumhald á leiknum. Lítið var gefið eftir og þær leiddu með 33 stigum eftir tvo þrista frá Gunnhildi 75-42. Það var sama hvað vörn Grindavíkur reyndu þær áttu ekki svör og voru undir eftir þriðja fjórðung 84-53.
Fjórði leikhluti leið og beið eftir úrslitum en sigur Snæfells óhjákvæmileg staðreynd svotil fyrir löngu í leiknum. Kristen McCarthy var öflug með 42 stig og 13 fráköst og allt Snæfellsliðið var einnig öflugt í dag og lokatölur 101-76.
Snæfell: Kristen Denise McCarthy 40/13 frák/ 5 stoðs. Hildur Sigurðardóttir 19/7 frák/7 stoðs. Gunnhildur Gunnarsdóttir 12/3 frák/8 stoðs. Berglind Gunnarsdóttir 9. Hugrún Eva 6/4 frák. Alda Leif 5./4 frák. Helga Hjördís 4/8 frák. María Björnsdóttir 4. Silja Katrín 0. Rebekka Rán 0. Anna Soffía 0.
Grindavík: Kristina King 20/10 frák/9 stoðs. María Ben 15/4 frák. Pálína Gunnlaugsdóttir 12. Jeanne Sicat 11/4 stoðs. Guðlaug Björt 7. Petrúnella Skúladóttir 4/5 frák. Ingibjörg Jakobsdóttir 3. Lilja Ósk 2/5 frák. Berglind Anna 2. Jóhanna Rún 0.