Grindavíkursigur í rafmögnuðum bikarleik

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Bikarmeistarar Grindavíkur tóku á móti toppliði Hauka í Powerade-bikar kvenna í gær í alveg hreint rafmögnuðum leik sem var æsispennandi fram á síðustu sekúndu. Grindavík fór að lokum með sigur af hólmi, 65-63, en Haukar fengu tvö tækifæri til að vinna leikinn í lokin. Grindavík er því komið áfram í 4-liða úrslit ásamt Keflavík, Snæfelli og Stjörnunni.

Fréttaritari síðunnar var á leiknum, skrifaði umfjöllun og tók myndir og viðtöl. Umfjöllunin birtist áður á karfan.is í gærkvöldi: 

„Grindavík og Haukar mættust í Mustad-höllinni í dag í 8-liða úrslitum Powerade bikarsins. Leikurinn varð nánast frá fyrstu mínútu “alvöru” bikarleikur og í járnum allan tímann. Það var ekki nema rétt um miðbikið sem aðeins dró í sundur með liðunum en heilt yfir var þetta gríðarlega jafn og spennandi leikur þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í loka sókninni.

Grindvíkurkonur mættu mjög ákveðnar til leiks, staðráðnar í að láta Haukana finna fyrir sér og láta þær ekki komast upp með neitt múður. Dómararnir virtust ekki vera alveg klárir á því hvar þeir ætluðu að setja hina svokölluðu línu í dómgæslunni og fannst manni oft eins og augljósum villum værum sleppt meðan að minni snertingar komu leikmönnum á vítalínuna. Gekk þetta jafn yfir bæði lið en Haukar virtustu láta þetta fara heldur meira í taugarnar á sér.

Heimakonur fóru ögn betur af stað og leiddu eftir fyrsta fjórðung með 2 stigum. Haukar aftur á móti unnu 2. leikhluta með 8 stigum og leiddu í hálfleik, 33-39.

Í stað þess að leggja árar í bát héldu Grindvíkingar áfram að berjast og láta finna fyrir sér í seinni hálfleik og söxuðu hratt á forskot Haukanna. Grindvíkinga beittu öllum brögðum í bókinni til að halda aftur að Helenu Sverrisdóttur sem endaði leikinn þó engu að síður stigahæst Hauka með 25 stig og 14 fráköst. Hún þurfti þó að hafa töluvert fyrir körfunum sínum í þessum leik og varnarmenn Grindavíkur eltu hana eins og skugginn allar 37 mínúturnar og 45 sekúndurnar sem hún spilaði.

Grindvíkingar hefðu sennilega getað klárað leikinn fyrr en Haukar eru ekki á toppi deildarinnar fyrir tilviljun og létu Grindavíkinga hafa töluvert fyrir hlutunum og töpuðu Grindvíkingar alls 27 boltum í leiknum. Grindvíkingar voru þó með pálmann í höndunum þegar rúm mínúta lifði leiks í stöðunni 63-59 en þá setti Helena 4 stig í röð og jafnaði leikinn. Dómurunum yfirsást í þessari atburðarás ótrúlega augljóst skref og ætlaði allt um koll að keyra í stúkunni á þeim tímapunkti.

Í næstu sókn brutu Haukar á Whitney Frazier sem átti mjög góðan dag hjá Grindavík og hún fór á línuna í stöðunni 63-63, búin að setja 5 víti í 8 tilraunum. Svellköld setti hún bæði beint ofan í en Haukar höfðu ennþá 8 sekúndur til að jafna eða vinna leikinn. Á þeim tíma tókst þeim að taka tvö þriggjastiga skot en klikka úr þeim báðum. Fyrst fékk Pálína skot úr ágætu færi sem geigaði og síðan reyndi Chelsie skot úr erfiðu færi en ofan í vildi boltinn ekki og sigurinn Grindvíkinga.

Grindvíkingar áttu þennan sigur fyllilega skilið en þær börðust eins og ljón allan tímann og virtust slá Haukana svolítið útaf laginu sem náðu ekki að spila sinn leik. Ríkjandi bikarmeistarar Grindavíkur eru því komnar í 4-liða úrslit Powerade bikarsins ásamt Keflavík, Snæfelli og Stjörnunni.

Tölfræði leiksins

Myndasafn á Facebook

Viðtalið við Daníel Guðna, þjálfara Grindavíkur, eftir leik: