Grindavíkurkonur steinlágu í Keflavík

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Okkar konur fara nú inn í landsleikjahlé í Domino’s deild kvenna á botni hennar, en þær töpuðu illa fyrir Keflavík um helgina, 84-66. Grindavík sá aldrei til sólar í þessum leik og munu væntanlega nýta hléið vel til að stilla saman strengi undir stjórn nýs þjálfara, Bjarna Magnússonar.

Karfan.is fjallaði um leikinn:

Keflavík tók á móti nágrönnum sínum í Grindavík í dag í níundu umferð Dominos deildar kvenna. Keflavík leiddi leikinn frá fyrstu mínútu og unnu mjög öruggan sigur 84-66 að lokum.

Þáttaskil:
Stórkostleg byrjun Keflavíkur var upphafið og endirinn í þessum leik. Þær komust strax í 10-2 forystu og stemmningsleysið var algjört í liði Grindavíkur. Munurinn var mestur 24-9 í fyrsta leikhluta og Grindavík hreinlega komst aldrei inní leikinn eftir það. Sóknarleikur Grindavíkur skánaði eftir því sem leið á leikinn en varnarleikurinn var aldrei til útflutnings og urðu áhlaup Grindavíkur því ekki merkileg. Keflavík átti frábæran leik þar sem leikmenn skildu allt eftir á vellinum og sýndu afhverju liðið er í toppbaráttu.

Tölfræðin lýgur ekki:
Skotnýting liðanna var helsti munurinn á liðunum tölfræðilega. Keflavík var með 50% skotnýtingu og þar af 35% fyrir utan þriggja stiga línuna. Á móti voru Grindvíkingar með 39% nýtingu og 27% við þriggja stiga í mun fleiri skotum. Grindavík leiddi í 0 mínútur í leiknum og var staðan einu sinni jöfn, það var í stöðunni 2-2.

Hetjan:
Dominique Hudson átti sinn lang besta leik fyrir Keflavík í dag en hún sýndi hvers hún er megnug er hún smellti niður 30 stigum, 8 fráköstum, 6 stoðsendingum og fiskar 10 villur. Þær stöllur Thelma Dís og Birna Valgerður áttu líka frábæran leik. Thelma byrjaði frábærlega og var upphafið af góðum leik Keflavíkur og Birna lék sér ítrekað af vörn Grindavíkur. Þær tvær voru líka verðskuldað valdar í 15 manna hóp landsliðsins fyrir leikina sem framundan eru.

Kjarninn:
Keflavík fer nú í landsleikjahléið í efsta sæti deildarinnar sem þær deila með Snæfell. Eftir níu leiki er liðið eingöngu búinn að tapa tveim og hafa komið verulega á óvart. Sigur þeirra í dag var gríðarlega sannfærandi, allir leikmenn liðsins virtust vita uppá hár hvað er ætlast til að þeim og baráttan stoppar aldrei. Grindavík kom flatt til leiksins og virðist liðið vera frekar einkennislaust þessa stundina. Það má væntanlega rekja að einhverju leiti til þjálfaraskiptanna. Þær taka væntanlega þessu langa landsleikjahléi fagnandi enda einungis unnið einn leik og sitja í neðsta sæti deildarinnar.

Texti: Jón Björn Ólafsson