Grindavík sótti tvö dýrmæt stig í Garðabæinn í baráttunni í Dominos deild kvenna í gær, en bæði lið mættu nokkuð lemstruð til leiks. Þær Petrúnella og Helga eru báðar enn að glíma við eftirköst heilahristings og munar um minna fyrir Grindavík. Okkur konur voru með forystuna framan af en Stjarnan jafnaði leikinn í þriðja leikhluta. Grindvíkingar voru þó sterkari á lokasprettinum og sigruðu að lokum, 58-68.
Jón Björn hjá Körfunni var á staðnum og fjallaði ítarlega um leikinn:
„Grindavík slapp með tvö stig úr Ásgarði í Domino´s-deild kvenna í kvöld. Allt stefndi í kjöldrátt en nýliðar Stjörnunnar börðu sér leið inn í leikinn en Grindvíkingar áttu meira bensín á tanknum á lokasprettinum. Lokatölur 58-68 og Grindavík þar með að landa þriðja sigurleiknum sínum í röð en jafnfram fjórða tap nýliðanna í röð sem leika án Chelsie Schweers fram að áramótum hið minnsta en Scheweers eins og áður hefur komið fram er handarbrotin og munar um minna fyrir nýliðana.
Að þessu sögðu voru þær Helga Einarsdóttir og Petrúnella Skúladóttir enn fjarverandi í liði Grindavíkur og ljóst að þær eru ekki enn komnar með græna ljósið frá læknum eftir þá heilahristinga sem leikmennirnir hlutu fyrr á tímabilinu. Að sama skapi var það gleðiefni fyrir gular að Björg Guðrún Einarsdóttir er mætt aftur til leiks en hún skilaði 3 stigum og 2 fráköstum á tæpum 25 mínútum í kvöld.
Grindvíkingar opnuðu með látum, komust í 0-10 áður en Bryndís Hanna Hreinsdóttir gerði fyrstu stig Stjörnunnar. Gular leiddu 13-27 eftir fyrsta leikhluta og voru funheitar eða 6/9 í þristum en þar fór Íris Sverrisdóttir fremst í flokki með þrjú stykki. Garðbæingar telfdu djarft því heimakonur vippuðu sér í 2-3 svæðisvörn í lok fyrsta hluta en þá var leikhlutakvóti Grindavíkur í þristum akkúrat búinn svo áhætta Stjörnunnar borgaði sig…um sinn.
Garðbæingar héldu sig við svæðisvörnina í öðrum leikhluta og náðu að hemja Grindvíkinga umtalsvert frá fyrsta leikhluta. Bit vantaði í sóknarleik gestanna og Garðbæingum til vansa var kjölfestuleikmaður á borð við Margréti Köru ekki komin á blað í hálfleik. Ragna Margrét Brynjarsdóttir reif í sig gott sóknarfrákast og minnkaði muninn í 24-38 sem urðu síðustu stig hálfleiksins. Leikhlutinn fór 11-11 og allt annað að sjá til Stjörnunnar á meðan Grindvíkingar slökuðu verulega á ólinni. Garðbæingar voru ískaldir fyrir utan í fyrri hálfleik, 0/11 í þristum.
Skotnýting liðanna í hálfleik
Stjarnan: Tveggja 10/22 – þriggja 0/11 – víti 4/4
Grindavík: Tveggja 9/21 – þriggja 6/13 – víti 2/3
Framan af þriðja leikhluta virtist Grindavík ætla að stinga af á nýjan leik en þá tóku Garðbæingar á rás. Margrét Kara Sturludóttir fór mikinn og þá voru þær einnig drjúgar þær Bryndís Hanna Hreinsdóttir og Ragna Margrét Brynjarsdóttir. Hægt og bítandi í þriðja hluta minnkaði munurinn, Ragna með laglega hreyfingu á blokkinni og minnkaði í 41-46 og það var svo Margrét Kara sem jafnaði leikinn með ótrúlegum hætti þegar hún skoraði sitjandi á gólfinu, 50-50, og þannig stóðu leikar fyrir fjórða leikhluta. Magnaður þriðji hluti hjá Stjörnunni sem fór 26-12 fyrir Garðbæinga. Ekki skemmdi heldur fyrir að þristarnir sem ekki vildu niður í fyrri hálfleik voru nú farnir að finna sér heimili þó fyrr hefði verið.
Fjórði leikhluti var stál í stál en Grindvíkingar héldu þétt að sér spilunum, gular héldu Stjörnunni í tveimur stigum fyrstu fimm mínútur fjórða leikhluta og lögðu þar með nýjan grunn að sigrinum í kvöld. Íris Sverrisdóttir setti sinn fimmta þrist í leiknum þegar rúmar tvær mínútur voru eftir og kom Grindavík í 54-65 og Stjarnan átti ekki afturkvæmt eftir það, lokatölur 58-68 eins og áður greinir.
Whitney Frazier var stigahæst í liði Grindavíkur með 23 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar og þá bætti Íris Sverrisdóttir við 17 stigum og 6 fráköstum og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var með 15 stig, 13 fráköst og 5 stoðsendingar. Hjá Stjörnunni var Ragna Margrét Brynjarsdóttir með 21 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar og Bryndís Hanna Hreinsdóttir með 15 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar. Margrét Kara Sturludóttir gerði 12 stig, tók 14 fráköst, gaf 3 stoðsendingar og stal 5 boltum.“
Viðtal við Írisi eftir leik: