Grindavíkur leikur í Pepsi-deildinni 2017!

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Knattspyrna

Það er nú ekki oft sem við splæsum í upphrópunarmerki í fyrirsögnum hér á síðunni en nú er fullt tilefni til því að Grindavíkur hefur tryggt sér sæti í Pepsi-deild karla á næsta tímabili! Með 1-0 sigri á Fjarðabyggð á laugardaginn er ljóst að liðið getur ekki endað neðar en í 2. sæti. Nú er ekkert eftir nema að vinna deildina, en Grindavík mætir toppliði KA í lokaumferðinni á Akureyri þann 17. september. 

Þrátt fyrir að fyrri hálfleikur færi svo til allur fram á vallarhelmingi gestanna þá gekk Grindvíkingum illa að brjóta ísinn og ekkert mark var skorað fyrir hlé. Fjarðabyggð er að berjast fyrir lífi sínu í deildinni og pökkuðu liði sínu í vörn og ætluðu greinilega að berjast fyrir að minnsta kosti 1 stigi en gerðu sig ekki mjög líklega til að skora. Grindvíkingar aftur á móti sóttu nær linnulaust að marki gestanna án þess þó að skapa sér afgerandi færi. 

Á 61. mínútu kom þó loksins mark. Alexander átti fullkomna fyrirgjöf á Andra sem gat ekki verið betur staðsettur og skallaði boltann í markið. Alexander gat svo gulltryggt sigurinn nokkrum mínútum síðar þegar Grindavík fékk víti en markvörður Fjarðabyggðar varði vítið sem þó var fast í hægra hornið. Það kom þó ekki að sök, lokatölur 1-0 og Grindavík komið í efstu deild á ný eftir nokkur mögur ár í 1. deild. 

Grindavík á tvo erfiða útileiki eftir, báða á Akureyri. Fyrst gegn Þórsurum þann 10. september og svo gegn KA eins og áður sagði þann 17. Báðir leikirnir verða sýndir beint á Stöð 2 sport.

Fótbolti.net fjallaði rækilega um leikinn og tók ein fjögur viðtöl við Grindvíkinga eftir leik. Umfjöllun þeirra má lesa hér.

Viðtal við Óla Stefán Flóventsson

Viðtal við Jósef Kristinn Jósefsson

Viðtal við Gunnar Þorsteinsson

Viðtal við Andra Rúnar Bjarnason

Þessi frábæra mynd er frá vinum okkar hjá Víkurfréttum