GRINDAVÍK VANN TOPPSLAGINN!

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

„Þetta var hörkuleikur sem gat dottið báðu megin, sem betur fer kláruðum við þetta,” sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindvíkinga við Vísi eftir að Íslandsmeistarnir skelltu Þórsurum í Röstinni í gærkvöldi 89-87 í spennandi og skemmtilegum leik.

„Við náðum mikilvægum sóknarfráköstum og vinnum vel með þau í restina. Svo klárar Sammy þetta undir lokin með flottu gegnumbroti. Hann gerði það vel, tók flotta rispu og lagði hann örugglega ofaní.”

Aron Broussard átti stórleik í þriðja leikhluta og var Sverrir ánægður með hans framlag.

„Aron var mjög góður í leiknum og hefur verið virkilega góður í vetur. Það er gott að hafa svona sterka leikmenn í liðinu.”

„Í fyrri hálfleik voru menn að hanga allt of mikið á boltanum, það var lítið flæði og menn spiluðu ekkert saman. Við erum góðir þegar ekkert flæði en við náðum að laga það og fengum stig úr öllum áttum.”

„Við vorum kaldir í þristunum en sóknarfráköstin bjarga því, við náðum boltanum úr nokkrum slíkum og settum niður körfur sem kláraði leikinn fyrir okkur.”

Grindvíkingar sitja einir á toppi deildarinnar eftir leiki kvöldsins með 22 stig.

„Deildin er gríðarlega jöfn og það eru flestir leikir hnífjafnir sem gerir framhaldið bara skemmtilegt,” sagði Sverrir að lokum.

Grindavík-Þór Þorlákshöfn 89-87 (19-15, 40-40, 30-26, 19-21)

Grindavík: Aaron Broussard 35/10 fráköst, Samuel Zeglinski 19, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 16/10 fráköst, Þorleifur Ólafsson 12, Jóhann Árni Ólafsson 5, Björn Steinar Brynjólfsson 2.