Grindavík vann nágrannaslaginn í Keflavík

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindvíkingar virðast heldur betur vera að rétta úr kútnum í Dominosdeild karla en þeir hafa nú unnið tvö topplið röð. Fyrst gegn Stjörnunni á föstudaginn og svo í gær gegn toppliði Keflavíkur. Leikmönnum var nokkuð heitt í hamsi í gær en okkar menn létu dómarana ekki fara í skapið á sér heldur sigldu sigrinum sallarólegir í höfn, en þeir fóru alls 43 sinnum á vítalínunni í leiknum. Lokatölur urðu 88-101, Grindavík í vil. Jón Axel Guðmundsson átti stórleik og skoraði 35 stig.

Karfan.is gerði leiknum rækilega skil:

Grindavík kálaði Keflavík af vítalínunni

Grindavík sigraði Keflavík fyrr í kvöld með 101 stigi gegn 88 á heimavelli þeirra síðarnefndu í TM Höllinni. Keflavík fellur því úr toppsæti deildarinnar niður í 2. á meðan að Grindavík sitja í því 8.

Liðin skipta því með sér sigurleikjum tímabilsins, en Keflavík sigraði Grindavík í Grindavík í fyrri leik liðanna í nóvember síðastliðnum. Bæði þessi lið unnu leiki sína í síðustu umferð. Grindavík gegn Stjörnunni og Keflavík gegn Snæfell.

Leikurinn fór fjörlega af stað og ljóst var alveg frá fyrstu mínútu að dómarar þessa leiks ættu eftir að eiga í fullu fangi með að ráða við leikmenn beggja liða ef að ekki ætti illa að fara. Liðin skiptust á höggum þennan fyrsta leikhluta, þar sem að heimamenn voru þó örlitlu skrefi á undan. Þegar að leikhlutinn var á enda voru þeir 2 stigum yfir 23-21.

Annar leikhlutinn var svo svipaður, þ.e. ljóst að ekkert ætti að gefa eftir, en öfugt við þann fyrsta, náði Grindavík að vera örlítið framar áður en að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik 41-46. Tveir þristar duttu þeirra megin rétt fyrir lok hálfleiksins, fyrst frá Jóhanni Árna og svo (án þess að Keflavík næði að svara) kom fallegur flautuþristur frá Jóni Axel.

Milil barátta einkenndi leikinn í þessum fyrri hálfleik. Liðin skiptust á forystunni í heil 6 skipti (jafnt í 7 skipti), en þó höfðu það verið Keflavík sem voru hvað lengst með forystuna það sem af var. Atkvæðamestur í hálfleik fyrir heimamenn var Jerome Hill, en hann skoraði 16 stig og tók 6 fráköst á meðan að fyrir gestina var það áðurnefndur Jón Axel Guðmundsson sem dróg vagninn með 15 stig og 4 stolna bolta.

Í byrjun 3. leikhlutans heldur áðurnefndur Jón Axel svo vinnu sinni áfram. Opnar reikninginn í seinni hálfleik með laglegu sniðskoti eftir að hafa sprengt upp vörn Keflavíkur. Jafnt og þétt yfir leikhlutann nær lið Grindavíkur svo að halda í og hægt en bítandi byggja ofan á þennan mun sem þeir fóru með í hálfleik. Þegar leikhlutinn er á enda eru þeir svo komnir með 9 stiga forystu. Að miklu leyti var Grindavík þarna að ná að stöðva aðgerðir Keflavíkur í sókn og sækja nógu hart að körfunni hinumegin á vellinum til þess að fá villur dæmdar á Keflavík og komast þannig á línuna. Hlutinn endaði í stöðunni 62-73.

Fjórði leikhlutinn var svo í svipuðum dúr. Hitinn smá saman lækkaði þó í mönnum. Grindavík hélt áfram að stoppa (að mestu) og sækja að körfunni hinumegin (sem áður) Þegar að yfir lauk hafði lið Grindavíkur farið í heil 43 skipti á línuna á móti aðeins 16 hjá liði heimamanna. Vissulega reyndi Keflavík eitthvað til þess að vinna mun gestanna niður, en sóknir þeirra virkuðu oftast ekki (voru t.a.m. aðeins 5/27 í þristum í leiknum) á meðan að Grindavík hélt haus og kláraði dæmið svo að lokum 88-101.

Maður leiksins var Jón Axel Guðmundsson, en hann skoraði 35 stig (16/20 úr vítum), tók 6 fráköst, stal 6 boltum og gaf 3 stoðsendingar á þeim rétt rúmu 36 mínútum sem hann spilaði.

Tölfræði

Myndir

Umfjöllun, viðtöl / Davíð Eldur

Myndir / SBS

Viðtal við Jóhann Þór Ólafsson þjálfara eftir leik

Viðtal við Þorleif Ólafsson eftir leik

Viðtal við Chuck Garcia eftir leik