Grindavík valtaði yfir Hamar í Hveragerði

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindavíkurkonur brunuðu austur Suðurstrandarveginn í gær og heimsóttu Frystikistuna í Hveragerði. Það er skemmst frá því að segja að heimastúlkur voru ískaldar og áttu aldrei möguleika í lið Grindavíkur en það hefur verið mikill stígandi í leik liðsins í síðustu leikjum. Grindavík fór að lokum með 35 stiga sigur af hólmi, 56-91.

Karfan.is var á leiknum og fjallaði um hann:

Sterkt lið Grindavíkur hafði betur í kvöld gegn Hamri í Hveragerði í kvöld, 91 – 56. Petrúnella átti virkilega góðan leik og setti niður 21 stig, var með 4 fráköst, 3 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Suriya McGuire fór fyrir heimakonum með 31 stig, 10 fráköst og 2 stoðsendingar.

Leikurinn var einfaldlega óspennandi og mikill getumunur á liðunum í kvöld. Grindavík stýrði leiknum og var yfir allan tímann. Þær fóru mun sterkari af stað og völtuðu hreinlega yfir lið Hamars. Heimakonur áttu flotta kafla en skotin voru því miður ekki að detta. Staðan eftir 1. leikhluta var 25 – 10 fyrir Grindavík og lýsandi fyrir það hvernig fyrstu 10 mínúturnar höfðu spilast. Suriya McGuire kom þó sterk inn á loka sekúndunum þegar hún blokkaði skot Grindvíkinga nánast út úr húsi.

Grindvíkingar mættu áfram hressari í 2. leikhluta. Hrund Skúladóttir stal boltanum af mótherjanum, setti niður auðvelt hraðaupphlaup og Grindavík stal svo boltanum strax aftur úr innkasti Hamars. Eftir það steig Hamar hinsvegar mjög vel upp og hausinn loksins komin inn í leikinn. Þær héldu í við gestina og minnkuðu forystu þeirra aftur undir lok leikhlutans sem fór að þessu sinni 21 – 16. Staðan fyrir hálfleik var því 46 – 26 fyrir Grindavík.

Lið Hamars var greinilega búið að finna betri takt eftir því sem leið á leikinn. Skotin fóru að detta betur og vörnin leit betur út. Það voru þó áfram Grindavíkur stúlkur sem leiddu leikinn enda enginn skortur á reynsluboltum þar á bæ. Hamars stúlkur voru oft að spila fína vörn en gleymdu svo kannski einum manni sem gat þá sett niður auðvelda körfu. Þetta var þó besti leikhluti þeirra sóknarlega og þær settu niður 20 stig gegn 29 stigum gestanna. Staðan var komin í 75 – 46 og ljóst að leikurinn var búinn.

Það hægðist á leiknum í loka leikhlutanum og ekki mikið um skoraðar körfur. Áhugavert þó að sjá 7 villur dæmdar á Grindavík en enga á Hamar á þessum 10 mínútum. Undir lokin voru lykil leikmenn komnir á bekkina og yngri stelpur fengu að spreyta sig. Gaman að sjá unga og efnilega leikmenn koma inn og sýna hvað í þeim býr. Liðin skoruðu bæði lítið, 16 – 10 fyrir Grindavík, og lokatölur því 91 – 56 fyrir gestunum.