Grindavík úr leik

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Eftir að hafa leitt gegn Snæfelli lengst af glopraði Grindavík niður ágætu forskoti á lokasprettinum og tapaði að lokum með 9 stigum í undanúrslitum Lengjubikarsins. Grindavík er þar með úr leik. Snæfell missti tvo lykilmenn út af með 5 villur þegar 5 mínútur voru eftir en það virtist eingöngu efla heimamenn.

Grindvíkingar skoruðu bara eitt stig á rúmlega þriggja mínútna kafla og voru komnir 13 stigum undir áður en þeim tókst að laga stöðuna í blálokin þegar úrslitin voru ráðin.

Jay Threatt átti frábæran leik með Snæfelli í kvöld en hann endaði með 30 stig, 9 fráköst, 6 stoðsendingar og 6 stolna bolta.

Snæfell-Grindavík 99-90 (22-26, 29-29, 21-20, 27-15)

Grindavík: Aaron Broussard 22/14 fráköst, Samuel Zeglinski 21/9 fráköst/8 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 18/11 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 18/4 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 6/8 fráköst, Þorleifur Ólafsson 5.

Jóhann Árni: Áttum að gera töluvert betur sóknarlega á síðustu mínútunum
Jóhann Árni Ólafsson skoraði 10 af 18 stigum sínum á upphafsmínútum leiksins en var að vonum svekktur í leikslok eftir að Grindavíkurliðinu tókst ekki að landa sigrinum. Grindavíkurliðið gaf mikið eftir í lokin.

“Mér fannst við vera í hörku leik en við vorum óheppnir að fá ekki dóma á lokakaflanum sem við hefðum viljað fá. Ég er viss um það þeir hafi viljað fá dóma hinum megin líka. Við eigum samt að fá tvö víti en þeir fá boltann og fara yfir og skora. Við þurftum því að fara að brjóta í endann. Mér fannst það vera leikurinn. Ég vil ekki kenna dómurunum um en þetta voru rosalega stórir dómar sem þeir voru að sleppa,” sagði Jóhann Árni svekktur við Vísi.

Snæfell missir tvo lykilmenn af velli en Grindavíkurliðið nær ekki að nýta sér það.

“Leikurinn snýst í þeirra hag sem er mjög bjánalegt. Ég hélt að við værum komnir með smá yfirtök í leiknum þegar þeir missa Nonna og kannan útaf. Ég hélt að við myndum eiga teiginn en við fórum í eitthvað allt annað. Það er sorglegt að hugsa til þess að við skyldum ekki hafa klárað þennan leik með þá útaf í sjö mínútur,” sagði Jóhann Árni.

“Við spilum ekki góða vörn og þeir skora næstum því þegar þeir vilja. Við vorum að skiptast á körfum við þá og þú vinnur ekkert Snæfell með því að skiptast á körfum. Mér fannst við samt eiga að gera töluvert betur sóknarlega á síðustu mínútunum sérstaklega þar sem að þeir eru með stóru mennina sína útaf. Við áttum að koma boltanum inn á Sigga og Aaron og klára þetta þar en við gerðum það alls ekki,” sagði Jóhann Árni.