Grindavík úr leik í bikarnum eftir hörku leik

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Grindavíkurstelpur töpuðu fyrir Fylki 3-5 í 32ja liða úrslitum bikarkeppni KSÍ á Grindavíkurvelli í gærkvöldi eftir framlengdan leik. Þrátt fyrir hetjulega baráttu reyndust gestirnir sterkari í framlengingu en leikurinn var frábær skemmtun.

Ágústa Jóna Heiðdal fyrirliði kom Grindavík yfir á 31. mínútu þegar hún stakk sér í gegnum vörn gestanna. Margrét Albertsdóttir kom Grindavík 2-0 á 43. mínútu þegar hún kastaði sér fyrir hreinsun frá markverði Fylkis, hirti boltann í kjölfarið og skoraði í autt markið. En strax í næstu sókn tókst Fylki að minnka muninn og staðan í hálfleik 2-1, Grindavík í vil.

Hart bar barist í seinni hálfleik en Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir skoraði þriðja mark Grindavíkur á 48. mínútu eftir flotta sókn og undirbúning Margrétar. En aftur sofnuðu Grindavíkurstelpur á verðinum því Fylki minnkaði muninn strax í næstu sókn í 3-2. Jöfnunarmark Fylkis kom á 61. mínútu og þrátt fyrir góð færi á báða bóga bættust ekki fleiri mörk við og því þurfti að framlengja. Fylkir var talstvert sterkara liðið framlengingunni, komst fljótt í 4-3. Grindavík sett allt kapp í sóknina á lokasprettinum en þá opnaðist vörnin og Fylkir gulltryggði sér 5-3 sigur með marki á lokamínútunni.

Þrátt fyrir tapið er ljóst að Grindavík er með hörku lið undir stjórn Helga Bogasonar. Bæði þessi lið leika í 1. deild og eru án efa tvö af bestu liðunum þar. Leikurinn var skemmtilegur, mikill hraði og gaman að sjá til Grindavíkurliðsins en klaufamistök í vörninni kostuðu þær sigurinn að þessu sinni.

Grindavíkurstelpur fagna marki Ingibjargar Yrsu í fyrri hálfleik.