Grindavík tryggði sér sæti í úrslitakeppninni með góðum sigri á Njarðvík

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindvíkingar tryggðu sér farseðil í úrslitakeppnina 24. árið í röð í gær með góðum sigri á Njarðvík, 100-85. Grindvíkingar mæta því KR annað árið í röð í 8-liða úrslitum.

Fréttaritari síðunnar var að sjálfsögðu á leiknum að fara úr stressi en kom samt þessum texta frá sér sem birtist á karfan.is í gær:

Grindavík í úrslitakeppnina 24. árið í röð eftir sigur á Njarðvík

Það var góð stemming í Mustad höllinni í kvöld þegar Njarðvíkingar sóttu Grindvíkinga heim og stúkan nokkuð þéttsetin. Njarðvíkingar í stúkunni voru ekki mikið færri en Grindvíkingar og létu vel í sér heyra. Þó svo að Njarðvíkingar hefðu að litlu að keppa þar sem að þeir gátu hvorki hækkað sig í töflunni né sigið niður voru þeir ekkert á því að færa Grindvíkingum sigurinn baráttulaust, enda hafa Njarðvíkingar ekki verið þekktir fyrir það í gegnum tíðina að gefa Grindvíkingum neitt ókeypis. Grindvíkingar aftur á móti lögðu allt undir í leiknum í kvöld. Tap myndi þýða að liðið missti af úrslitakeppninni í fyrsta sinn síðan 1992 og raunar var ekki nóg að sigra því Snæfell varð líka að tapa sínum leik í Þorlákshöfn. Spennustigið var því nokkuð hátt í Grindavík í kvöld.

Leikurinn fór fjörlega af stað og Grindvíkingar reyndu að keyra upp hraðann en Njarðvík svaraði öllum þeirra brögðum með einu einföldum og skilvirkum krók á móti bragði, þristum. Njarðvíkingar settu 5 þrista í fyrsta leikhluta og þar af setti Haukur Helgi 3 í 4 tilraunum og Oddur 2 í 3. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 25-23 Grindvíkingum í vil og leikurinn galopinn.

Í öðrum leikhluta hægðist aðeins á þristaskothríðinni hjá Njarðvíkingum, en þeir fundu netið fyrir utan línuna aðeins einu sinni í 7 tilraunum. Grindvíkingar gengu á lagið og byggðu upp forskot, náðu mest 14 stiga forskoti, 41-27, en Njarðvíkingar voru þó aldrei langt undan, staðan í hálfleik 50-42. Grindvíkingar hafa sennilega gengið nokkuð bjartsýnir til búningsherbergja í hálfleik, enda voru þeir að fá framlag frá mörgum leikmönnum. Garcia stigahæstur með 13, Jón Axel 12 og Ómar 11. Hjá Njarðvík var það Haukur Helgi sem fór fyrir sínum mönnum með 14 stig og Atkinson kom næstur með 10.

Þriðji fjórðungur var svo algjörlega eign heimamanna og var munurinn orðinn 20 stig að honum loknum. Njarðvíkingar skoruðu aðeins 14 stig í leikhlutanum og þar af skoruðu Haukur og Atkinson 12 þeirra. Það voru þó lokaorð Hauks í leiknum en hann var orðinn eitthvað stífur í bakinu og tóku þjálfarar Njarðvíkur enga sénsa og hvíldu hann síðustu 10 mínúturnar.

Þar með voru Njarðvíkingar án þriggja lykilmanna í lokaleikhlutanum en eins og kunnugt er þá er Logi Gunnarsson úr leik það sem eftir lifir leiktíðar og þá var Maciej Stanislav Baginski fjarri góðu gamni í kvöld vegna veikinda. Hinir ungu leikmenn Njarðvíkinga ásamt Atkinson voru þó ekki á því að leggja árar í bát og gerðu áhlaup á Grindvíkinga. Þeir Adam Eiður og Jón Arnór áttu báðir mjög góða spretti og skoruðu 15 stig saman í leikhlutanum. Njarðvíkingum tókst að minnka muninn í 9 stig úr 20 og þá fór eflaust að fara um margan Grindvíkinginn í stúkunni. Í stöðunni 90-81 og tæpar 3 mínútur til leiksloka tók Jóhann Árni til sinna ráða og slökkti endanlega í vonum Njarðvíkinga þegar hann smellti einu þristi svellkaldur eftir að hafa klikkað úr 6 fyrstu þriggjastigaskotum sínum í leiknum. Eftir það virtist eins og leikmenn beggja liða sættu sig við orðinn hlut og Grindvíkingar unnu að lokum 100-85.

Þá var leik ekki lokið í Þorlákshöfn og leikmenn og áhorfendur biðu með öndina í hálsinum en eftir nokkrar mínútur tilkynnti vallarþulurinn að Þórsarar hefðu unnið. Grindvíkingar fögnuðu innilega og fara í úrslitin í 24. skiptið í röð þar sem þeir mæta KR, annað árið í röð.

Grindvíkingar unnu sannkallað liðs- og baráttusigur í kvöld. Þorleifur Ólafsson var stigahæstur þeirra í kvöld með 27 stig, þar af 6 stóra þrista. Chuck Garcia kom næstur með 21 stig en honum voru ansi oft mislagðar hendur, og fætur, í kvöld en hann tapaði alls 9 boltum og fór að lokum útaf með 5 villur, sú fimmta klaufaleg sóknarvilla. Vonandi fyrir Grindvíkinga nær hann að pústa sig almennilega í gang fyrir viðureignina gegn KR. Ómar Örn Sævarsson spilaði líka eins og engill í kvöld og fór eins og svo oft áður fyrir sínum mönnum í baráttu, endaði með 20 stig og 10 fráköst. Þá átti Jón Axel einnig skínandi leik, skoraði 16 stig, tók 13 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Ekki amaleg tölfræðilína það.

Hjá Njarðvíkingum átti Haukur Helgi mjög góðan leik og Grindvíkingar lögðu mikið effort í að reyna að hægja á honum, neita honum um sendingar og þar fram eftir götunum, en þegar hann fékk boltann var hann illviðráðanlegur. Atkinson var stigahæstur Njarðvíkinga með 28 stig og 17 fráköst, Haukur kom næstur með 20 og þá Adam með 13.

Úrslit kvöldsins þýða að Njarðvíkingar mæta Stjörnunni í 8-liða úrslitum en þeir unnu Keflavík með tveimur stigum í kvöld, 73-71.

Tölfræði leiksins

Viðtal við Jóhann Þór Ólafsson eftir leik: