Grindavík vann góðan sigur á Þórsurum, 100-92, í Mustad-höllinni í gær og hefur því tekið 2-1 forystu í einvíginu. Dagur Kár Jónsson fór fyrir okkar mönnum í gær og setti 29 stig. Næstur kom Lewis Clinch Jr með 20 stig en saman settu þeir 10 þrista. Næsti leikur er í Þorlákshöfn á morgun, föstudag.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson var í hlutverki fréttaritara karfan.is á leiknum:
Mættur á 3. leik Grindavíkur og Þórs Þorlákshöfn í 8-liða úrslitum Dominos og er að þessu sinni í „besta sætinu” eins og segir í auglýsingunni. Málið er einfalt, þessi sería er búin að breytast úr „Best of 5″ yfir í „Best of 3″ þar sem liðin skiptu fyrstu tveimur leikjunum á milli sín. Eftir jafna leiki á milli þessara liða í vetur þá þarf þessi staða ekkert að koma á óvart og því síður kæmi á óvart ef þetta fari í hreinan oddaleik en til þess þurfa bæði lið að ná í 1 sigur í viðbót. Nokkuð ljóst að liðið sem vinnur þennan leik sest undir stýrið í þessu ferðalagi.
Grindvíkingar byrjuðu betur og voru heitir fyrir utan 3-stiga línuna. Dagur Kár fljótlega búinn að setja 2 þrista og Lewis 1. Þegar Dagur skoraði sín 14. stig og kom Grindavík í 22-12 þá ákvað Einar Árni þjálfari gestanna að taka leikhlé. Tobin sem fyrr atkvæðamestur Þórsara. Það sem mestu munaði þessar fyrstu mínútur fyrir utan hita Dags Kár, voru 4 sóknarfráköst heimamanna á móti engu gestanna. Gulir og graðir heimamenn í byrjun!
Eftir leikhléið komu Þórsarar aðeins grimmari í til leiks og minnkaði munurinn í 7 stig en Dagur og Lewis luku fjórðungnum á svipaðan máta og þeir hófu hann, með þristum og munurinn 11 stig eftir opnunina, 31-20. 31 stig fengin á sig fengu Einar Árna jafnvel til að klóra eftirlifandi hár af hausnum á sér…..
2. leikhluti byrjaði eins og sá fyrsti og eftir að Lewis setti fáranlegan þrist úr horninu þar sem hann virtist vera missa boltann út af þá gat maður ekki annað en hugsað að þetta yrði kvöld heimamanna. Þú lesandi góður tekur eftir að ég skrifa hér um Kana Grindvíkinga sem Lewis en ekki Clinch en í mínum huga er um 2 ólíka leikmenn að ræða, eins fáranlega og það má hljóma/líta út….. Lewis er á pari við bestu Kana deildarinnar að mínu mati, áræðinn, graður og grimmur, skorar vel, finnur félagana og tekur fráköst en Clinch hins vegar þessi kurteisi og góði gæji sem þjálfar grindvískt ungviði kl. 6 á morgnana og passar sig á að troða engum um tær þegar inn á völlinn er komið! Einkennilegt alveg hreint. Sem betur fer fyrir Grindvíkinga er það Lewis sem spilar fyrri hálfleikinn en ekki Clinch.
Sami barningur hélt áfram, munurinn rokkaði frá 12-14 stigum í 7-9 en á einu augabragði þegar lítið lifði leiks, færðu gestirnir muninn niður í 2 stig og voru óheppnir að minnka hann ekki í 1 stig þegar 3-stiga skot Ólafs Helga rétt geigaði. Grindavík skoraði ekki og Tobin setti síðustu 2 stig hálfleiksins og munurinn einungis 2 stig, 50-48. Tobin áfram illviðráðanlegur hjá Þór, búinn að setja 8/9 skotum sínum niður og öll vítin, með 20 stig. Enginn annar gestanna kominn yfir 10 stigin. Hjá gulum er það bakvarðarparið Dagur og Lewis með 15 og 14 stig. Heimamenn mega naga sig í handabökin því þegar þeir voru með örugga 10+ forystu og með boltann þá létu þeir gestina stela honum klaufalega af sér og í annað skiptið kom „and-1″ karfa. Svona er oft stutt á milli en framundan er hörkubarátta!
Seinni hálfleikur hófst með einvígi Kana liðanna og ljóst að hvorugur ætlaði að gefa þumlung eftir. Tobin alveg hreint magnaður í að það virðist vonlausum skotum og Lewis áræðinn á hinum endanum. Ólafssynirnir settu 2 þrista í röð og komu muninum upp í 10 stig og Dagur Kár átti einn sem hreinlega skrúfaðist upp úr og augnablikið komið Grindavíkurmegin á ný. Þórsarar áttu erfitt með að finna körfuna og ef það var ekki Tobin sem skaut þá mátti nánast bóka að ekki kæmi karfa en þegar 3 mínútur lifðu 3. leikhluta þá var Tobin búinn að hitta 11/12 skotum sínum, ótrúlegt alveg hreint! Dagur Kár sem hafði haft frekar rólega um sig í seinni hálfleik kom sterkur upp í lok 3. leikhlutans og setti 2 þrista og þann seinni á lokasekúndunni og kom muninum þannig upp í 13 stig. Dagur þarna kominn með 26 stig, Lewis 18 og bræðurnar sömuleiðis skriðnir yfir 10 stigin, sá eldri með 12 og Ólafur með 11. Hjá Þór er nánast um „one man show Danny boy” að ræða hjá Tobin sem var kominn með 30 stig eftir 3 leikhluta en Maceij vaknaði aðeins til lífsins og var kominn í 15 stig.
Blóðbragðið var komið á tennur gulra og eftir 2 ½ mínútu í lokafjórðungnum var ekkert sem benti til að gestirnir myndu reyna endurkomu og áður en varði var munurinn kominn upp í 19 stig en Grindvíkingar náðu tveimur „and-1″ körfum án þess að Þór myndi svara. Fljótlega fóru minni spámenn að koma inn hjá heimamönnum en í langri seríu getur það reynst gulls ígildi að hvíla lykilleikmenn en sömuleiðis getur það virkað sem piss í skóinn því Þórsarar nýttu sér þetta og komu muninum niður í 12 stig á augabragði og ennþá um 5 mínútur eftir af leiknum. Þórsarar fengu síðan tækifæri á að koma muninum niður fyrir 10 stigin en 3-stiga skot rétt geigaði en eftir 3 tilraunir heimamanna sem geiguðu á hinum endanum þá kom Maceij muninum niður fyrir þennan sálfræðilega háa þröskuld en þá tók líka Jóhann Þór leikhlé og tók vindlana út af! Ómar skoraði eftir flotta stoðsendingu Lewis en annar þristur fylgdi hjá Þór og munurinn bara 8 stig! Þórsarar komust síðan ekki nær og Einar kastaði handklæðinu þegar 1 ½ lifði leiks.
Dagur Kár var bestur heimamanna og skoraði 29 stig. Lewis var sömuleiðis frábær, með 20 stig og 8 stoðsendingar. Allt byrjunarlið Grindavíkur skoraði 10+ og munar um minna, Lalli með 17, Ómar með 13 og 8 fráköst og Óli með 12 og 13 fráköst.
Ljóst að Þórsarar þurfa framlag frá fleirum en Tobin og Maceij sem skoruðu 38 og 18 stig en Ragnar Örn Bragason rétt skreið yfir 10 stigin í lokin og endaði með 12.
2-1 fyrir Grindavík og 4. leikurinn á föstudag í Þorlákshöfn. Grindavík getur þar tryggt sér farseðilinn
Umfjöllun / Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Myndir / SBS
Viðtal við Dag Kár eftir leik: