Grindavík þarf á kraftaverki að halda

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Grindavík lá fyrir Stjörnunni 89-101 í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í Röstinni í gærkvöldi. Stjarnan leiðir einvígið 2-1 og getur því tryggt sér titilinn þegar liðin mætast í Garðabæ á fimmtudaginn.

Fyrri hálfleikur var frábær skemmtun. Sóknarleikur beggja liða var í öndvegi og Jóhann Árni Ólafsson setti niður þriggja stiga skot undir lok fyrri hálfleiks og staðan 48-45, Grindavík í vil.

En seinni hálfleikurinn breyttist í martröð fyrir Grindavíkinga sem réðu illa við Jovan Zdravevski um tíma og Stjarnan vann að lokum sanngjarnan 12 stiga sigur. Grindvíkingar hrukku í þann gír að fara í einstaklingsframtakið sem kann ekki góðri lukku að stýra og að ósekju hefðu leikmenn á borð við Daníel G. Guðmundsson, Davíð Ingi Bustion og Ryan Petinella mátt spila mun meira og þá þarf líka stuðtýpur eins og Ólaf Ólafsson inn á völlinn í svona leikjum.

Stjarnan er því með pálmann í höndunum og eins og síðustu tveir leikir hafa verið þarf kraftaverk til að Grindavík jafni einvígið í Ásgarði á fimmtudaginn þar sem Stjarnan er taplaus í úrslitakeppninni.

Grindavík-Stjarnan 89-101 (26-24, 22-21, 24-29, 17-27)

Grindavík: Samuel Zeglinski 25/7 stoðsendingar, Aaron Broussard 22/14 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 17, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 12/13 fráköst, Daníel G. Guðmundsson 5, Þorleifur Ólafsson 5, Davíð Ingi Bustion 3, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Ryan Pettinella 0, Ólafur Ólafsson 0, Jón Axel Guðmundsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0.