Grindavík tekur á móti Selfossi í kvöld

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Knattspyrna

Grindavík tekur á móti Selfossi í 1. deild karla í kvöld og hefst leikurinn kl. 19:15. Fyrri leik liðanna í sumar sem fram fór á Selfossi lyktaði með jafntefli, 1-1. Síðan þá hefur báðum liðum gengið heldur brösulega í deildinni, Selfyssingum þó sýnu verr en þeir sitja í 10. sæti með 13 stig meðan Grindvíkingar eru um miðja deild, í 6. sæti með 21 stig.

Góð stemming myndaðist á vellinum á síðasta heimaleik okkar Grindvíkinga og á Facebooksíðu Knattspyrnudeildarinnar hefur Óli Stefán Flóventsson, annar af þjálfurum liðsins, kallað eftir álíka stuðningi í kvöld:

„Þó að úrslitin og spilamennskan hafi ekki verið uppá það besta í síðustu tveimur leikjum þá köllum við engu að síður eftir sömu stemmningu og í síðasta leik. Vonandi mæta 3. flokkar karla og kvenna í sama gír og vonandi fylgja aðrir þeirra fordæmi.

Ég vil að við vinnum fyrir stemmningunni og eftir að hafa fundað með strákunum þá veit ég það fyrir víst að þeir ætla sér að leggja blóð, svita og tár í leikinn á morgun til að ná að fagna með ykkur eftir leik.
Sjáumst á vellinum á morgun, fimmtudag 6. ágúst kl 19.15.“

Allir á völlinn og áfram Grindavík!