Grindavík tekið í kennslustund

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Grindavík tókst ekki að klára undanúrslitaeinvígið við Stjörnuna í kvöld. Stjarnan skein skært og segja má að Grindavík hafi verið niðurlægt á heimavelli því Stjarnan vann með 17 stiga mun, 82-65. Liðin mætast því að nýju í Garðabæ.

Í kvöld fór fram þriðji leikur í undanúrslitarimmu Grindavíkur og Stjörnunar í Iceland Express-deild karla. Leikið var í Röstinni, heimavelli Grindvíkinga og gátu heimamenn tryggt farseðill sinn í úrslitarimmuni með sigri. Þeir höfðu tvívegis lagt Stjörnumenn að velli og var því að duga eða drepast fyrir lærisveina Teits Örlygssonar í Stjörnuni. Grindvíkingar mættu grimmir til leiks en það var ekkert mikið meira en það. Stjörnumenn fóru með öruggann sigur að hólmi, 82-65, og fara því ekki í sumarfrí alveg strax. Leikurinn var frábær skemmtun og líkamlega mjög erfiður. Dómarar leiksins voru í stóru hlutverki í dag og voru áhorfendur heimaliðsins ekki alltaf sáttir við þá.

Eins og svo oft áður þegar þessi lið mætast, þá var mikið um góðar varnir og komu fyrstu þrjú stig gestanna af vítalínunni og tók þá 3 mínútur að skora ‘venjulega’ körfu. Mikill hiti var í mönnum strax í fyrsta leikhluta, og var greinilegt hjá Stjörnumönnum að það var að duga eða fara í sumarfrí. Eftir gott áhlaup undir lok 1. leikhluta leiddu þeir með 4 stigum, 21-17, þegar 2. leikhluti hófst. Páll Axel Vilbergsson hóf 2. leikhlutann með þrist fyrir heimamenn, en þá kom 9-0 kafli hjá Garðbæingum og þá fannst Helga Jónas Guðfinnssyni, þjálfara Grindavíkur, ráðlagt að taka leikhlé. Grindvíkingar voru að velja erfið færi, enda var Stjörnu-vörnin afskaplega þétt og hreyfanleg. Þeir voru að leyfa heimamönnum að skjóta nokkuð frjálst fyrir utan og virkaði sú taktík vel en Grindvíkingar voru aðeins 4/14 úr þriggja stiga í hálfleik. Dómarar leiksins voru alls ekki í öfundsverðu hlutverki en varnir beggja liða voru mjög harðar í horn að taka. Þetta létu Grindvíkinar fara í taugarnar á sér og skömmuðust út í dómarana. Í hálfleik stóðu áhorfendur Grindavíkurliðsins upp og létu dómarana heyra það með tilheyrandi bauli. Staðan í hálfleik var 34-46, gestunum frá Garðarbæ í vil. Það var greinilegt að Stjörnumenn voru mættir til þess að berjast fyrir lífi sínu og sýndu allar aðgerðir þeirra á vellinum, stöðuna sem þeir voru búnir að koma sér í. Grindvíkingar virkuðu heldur afslappaðari og voru kannski að eyða fullmikilli orku í því að rífast og skammast í dómaraparinu.

Það tók Grindvíkinga tæplega 4 mínútur að skora fyrstu stig sín í síðari hálfleik en á meðan voru gestirnir búnir að gera 4. Enn hélt pirringur heimamanna út í dómarann áfram og uppskar Helgi Jónas Guðfinnsson tæknivillu á bekkinn hjá Grindavík. Ekki róaðist leikurinn við þetta en nú voru áhorfendur staðnir á fætur. Grindvíkingar létu mótlætið fara virkilega í taugarnar á sér og voru Stjörnumenn fljótlega komnir með 19 stiga forystu, 38-57. Garðbæingar léku við hvern sinn fingur og stálu boltanum af heimamönnum, hvað eftir annað, sem voru ekki sjálfum sér líkir. Þegar lokaflautið í 3. leikhluta gall, var staðan 45-66 fyrir gestina en þeir voru einfaldlega skynsamara liðið í 3. leikhluta. Grindvíkingar skoruðu aðeins 11 stig á þessum tíu mínútum og voru enn aðeins búnir að skora 4 þrista, nú úr 21 tilraun. Ef að það var ekki ljóst fyrir 4. leikhluta hvort liðið færi með sigur að hólmi, þá fór Marvin Valdimarsson langt með að klára leikinn þegar enn voru 5 mínútur eftir. Þá skoraði hann góða körfu og breytti stöðunni í 77-53. Lykilleikmenn í Grindavíkurliðinu voru langt frá sínu besta á meðan hver einasti leikmaður Stjörnunar var að leika vel. Þessi lið eru það jöfn að svona margir lykilleikmenn Grindavíkur mega ekki eiga slakan dag og ætlast til þess að sigra. Að lokum fóru leikar svo að Stjarnan vann með 17 stigum, 82-65, og tryggði sér annan leik í þessari mögnuðu seríu.

Það er erfitt að sigta einhvern út sem besta mann Stjörnuliðsins í dag, en Jovan Zdravevski og Justin Shouse áttu mjög góðan leik. Justin fór oft og tíðum illa með Giordan Watson í Grindavíkurliðinu en hann skoraði 16 stig, gaf 6 stoðsendingar og tók 4 fráköst. Þar sem sigurinn var nokkuð öruggur gat Teitur Örlygsson hvílt nokkra lykilleikmenn liðsins undir restina og gæti það átt eftir að koma sér vel í næsta leik. Þá mun Fannar Helgason snúa aftur í lið Stjörnunar í næsta leik, en hann er búinn að taka út tveggja leikja bannið sem hann var dæmdur í. Grindvíkingar þurfa að gera betur í næsta leik liðanna ef þeir ætla ekki að bjóða uppá oddaleik í seríunni. Þeir hafa enn yfirhöndina, þrátt fyrir að hafa leikið illa í kvöld, og geta enn sent Stjörnuna í sumarfrí með einum sigri til viðbótar.

Stig Grindavíkur: Þorleifur Ólafsson 16/4 fráköst/6 stolnir, J’Nathan Bullock 12/6 fráköst, Giordan Watson 9/7 stoðsendingar, Ómar Örn Sævarsson 6/5 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 5, Ólafur Ólafsson 5, Ryan Pettinella 5/5 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 3, Björn Steinar Brynjólfsson 2, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 2.

sport.is

Myndir: Þorsteinn Gunnar Kristjánsson