Grindavík tapaði Suðurnesjaslagnum í Keflavík

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Grindavík sótti nágranna sína í Keflavík heim núna á laugardaginn en okkar konur mættu til leiks án tveggja lykilmanna, en þær Helga og Petrúnella eru báðar frá vegna meiðsla. Keflvíkingar hafa einnig orðið fyrir ýmsum skakkaföllum við upphaf móts, en meðalaldur leikmanna liðsins er rúmlega 18 ár. Til að gera langa sögu stutta þá voru heimastúlkur skrefinu á undan svo til allan leikinn og fóru að lokum með sigur af hólmi, 72-64.

Karfan.is var með fréttaritara á staðnum:

„Vitað var að þetta yrði erfiður leikur fyrir Grindavík eftir að hafa misst tvo mjög mikilvæga leikmenn í meiðsli í síðustu leikjum. Þær gulu spiluðu án Petrúnellu Skúladóttur og Helgu Einarsdóttur sem eru báðar að fást við afleiðingar heilahristings.

Keflavík kom inn í þennan leik eftir 3 töp í röð og var því þessi leikur mikilvægur fyrir liðið upp á baráttu um stöðu á töflunni.

Bæði lið fóru brösulega af stað. Sóknarleikurinn stirður en Grindavík gat varla keypt körfu eftir fína byrjun í 1. hluta. Guðni, þjálfari Grindavíkur tók leikhlé um miðbik 2. hluta og hefur kokkað upp einhverja töfralausn á vandamálum liðsins á þeirri mínútu sem það stóð yfir. Allt annað var uppi á teningnum eftir það.

Grindavíkurstúlkur hlupu kerfin sín vel og nýttu færin. Spiluðu svo fantavörn og náðu að komast einu stigi yfir, 35-36 rétt fyrir hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiks skiptust liðin á að ná forystunni, alls 9 sinnum í leiknum. Bæði lið spiluðu mjög vel en Keflavík seig fram úr í lok 3. hluta og hafði náð að síga 7 stigum fram úr þegar flautan gall.

Fimm mínútna stigalaus kafli hjá Keflavík í 4. hluta hleypti Grindavík aftur inn þar til Guðlaug Björt tók lokið af körfunni og skoraði 2 stig eftir væna fléttu. Sóknarleikur Keflavíkur var ekki að ganga sem skyldi það sem eftir lifði leiks en grjótharður varnarleikur skilaði þeim hins vegar mikilvægum 72-64 sigri á heimavelli.

Melissa Zorning leiddi Keflvíkinga með 31 stig en Sandra Lind var eins og turn í teignum með 10 stig, 15 fráköst og 6 varin skot. Hjá Grindavík mæddi mikið á Whitney Frazier en hún fékk lítið rými til athafna í teignum á móti Söndru. Hún skoraði 19 stig í leiknum og tók 10 fráköst.“

Tölfræði leiksins