Grindavík sótti stig í Kópavoginn

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Knattspyrna

Grindavík sótti Blika heim í Kópavoginn í gær, í markalausum en fjörugum leik. Grindvíkingar áttu erfitt uppdráttar sóknarlega í fyrri hálfleik og boltinn var að mestu í fótum heimamanna en vörn Grindavíkur var þétt og öguð og Blikar náðu ekki að skapa sér nein afgerandi færi. Þeir reyndu mörg langskot sem fóru annað hvort yfir markið eða í öruggar hendur Kristijan Jajalo.

Okkar menn voru öllu líflegri fram á við í seinni hálfleik og sköpuðu sér þrjú kjörin marktækfæri. Inn vildi boltinn þó ekki frekar en hjá heimamönnum og lokaniðurstaðan 0-0 jafntefli og 1 stig í sarpinn. Grindavík situr því eitt í 2. sæti deildarinnar eftir 9 umferðir, tveimur stigum á eftir toppliði Vals, og 4 stigum á undan liðunum í 3.-5. sæti.

Í textalýsingu Fótbolta.net stóð að “við leit á meiðslalistanum var ekki margt að finna. Svo að við ættum að sjá fullskipuð lið í kvöld!” – Þar klikkaði einhver á að vinna sína heimavinnu en Grindavík var með 4 sterka leikmenn á sjúkralistanum í gærkvöldi. Rodrigo Gomez Mateo hefur ekki enn reimað á sig skóna í sumar og Magnús Björgvinsson aðeins spilað einn leik. Þá voru þeir Juan Manuel Ortiz Jimenez og Milos Zeravica einnig fjarri góðu gamni í gær vegna meiðsla og Brynjar Ásgeir Guðmundsson tók út leikbann.

Til að bæta gráu ofan á svart þurftu þeir Hákon Ívar Ólafsson og Andri Rúnar Bjarnason báðir að yfirgefa völlinn meiddir í gær. Þá ljóstraði Kristijan Jajalo því upp eftir leik að hann hefði ekkert æft í vikunni vegna meiðsla. Næsti leikur Grindavíkur er eftir tæpar tvær vikur, svo að vonandi mun meiðslalistinn verða orðinn eitthvað styttri þegar Grindavík tekur á móti KA þann 9. júlí. Þeir Björn Berg Bryde og Saw Hewson munu báðir taka út leikbann í þeim leik en þeir fengu sín fjórðu gulu spjöld í leiknum í gær. Fréttaritara þótti dómari leiksins vera full spjaldaglaður en 5 leikmenn Grindavíkur fóru í bókina í gær, oftar en ekki fyrir fyrsta brot og litlar sakir (hlutlaust mat fréttaritara).

Mynd úr myndasafni Fótbolta.net

Viðtal við Óla Stefán á Fótbolta.net

Skýrsla og umfjöllun Fótbolta.net