Grindavík sló út Skallagrím og mætir KR í undanúrslitum

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Grindavík átti ekki í nokkrum vandræðum með að leggja Skallagrím að velli 102-78 í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum úrvaldseildar karla í körfubolta. Þar með tryggði Grindavík sér sæti í undanúslitum og mætir þar KR.

Grindavík byrjaði vel og náði 11 stiga forskot eftir fyrsta leikhluta en Aaron Broussard var óstöðvandi og skoraði 17 af 30 stigum Grindavíur. Staðan í hálfleik var 54-38, Grindavík í vil. Grindavík bætti við 9 stiga forskot í sarpinn í þriða leikhluta og þar með var sigurinn í höfn og fjórði og síðasti leikhlutinn nánast formsatriði.

Skallagrímur-Grindavík 78-102 (19-30, 19-24, 20-29, 20-19)

Grindavík: Aaron Broussard 23/14 fráköst/7 stoðsendingar/6 stolnir, Samuel Zeglinski 20/6 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 14/4 fráköst, Þorleifur Ólafsson 11, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 8/4 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 6, Ryan Pettinella 6/5 fráköst, Ólafur Ólafsson 6, Davíð Ingi Bustion 3, Einar Ómar Eyjólfsson 3, Daníel G. Guðmundsson 2/4 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 0.

Páll Axel: Skallagrímur þarf engu að kvíða

Páll Axel Vilbergsson, leikmaður Skallagríms og fyrrum leikmaður Grindavíkur, bar sig vel eftir tapið gegn sínum gömlu félögum í kvöld.

“Við hefðum alltaf þurft toppleiki gegn þessu Grindavíkurliði og það hefði jafnvel ekki dugað. Það verður samt ekki tekið af okkur að menn voru að leggja allt í þetta. Það bara dugði ekki til því miður,” sagði Páll Axel við Vísi en hann er nokkuð sáttur við veturinn.

“Skallagrímur þarf engu að kvíða. Það er verið að spila þetta hérna á ungum heimamönnum. Þetta eru flottir strákar og það þarf að byggja starfið á þessum strákum,” sagði Páll Axel en verður hann áfram?

“Ég verð áfram í Borgarnesi. Ég vona það allavega. Ég er mjög spenntur fyrir því að taka þátt í þessu áfram hérna. Það hefur verið rosalega gaman að taka þátt í þessu.”

Sverrir: Sannfærandi allan tímann

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur, var að vonum ánægður með sína menn sem kláruðu leikinn með stæl. Ekkert vanmet, bara fagmennska.

“Við vorum tilbúnir frá upphafi og gáfum ekkert eftir. Það gerði þetta frekar auðvelt fyrir okkur. Það er erfitt að koma hingað og við vorum undirbúnir í hörkuleik. Við spiluðum nokkuð vel og þetta var sannfærandi allan tímann,” sagði Sverrir við Vísi en hvernig leggst rimman gegn KR í hann?

“Það verður hörkurimma og gott að fara í hana eftir góðan leik. KR var spáð sigri í deildinni og það ekki að ástæðulausu. Liðið er með hörkumannskap og það átti enginn von á því að þetta lið myndi enda í sjöunda sæti í deildinni. KR er búið að slípa sig saman núna og þetta verður bara gaman gegn þeim.”