Grindavík skellti KR

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Grindavík vann góðan útisigur gegn KR í áttundu umferð í Dominos-deildar karla í körfuknattleik, 80-87 í gærkvðöldi. Leikurinn var jafn og spennandi en gestirnir úr Grindavík sigu frammúr í lokaleikhlutanum og náðu í sinn sjötta sigur á leiktíðinni.

Leikurinn byrjaði fjörlega og skiptust liðin á að skora. Staðan var jöfn í eftir fyrsta leikhluta 22-22. Grindvíkingar náðu að mjaka sér í forystu í öðrum leikhluta sem þeir unnu með sex stigum. Staðan í hálfleik 41-47. Aaroun Broussard var líflegur í kvöld og var kominn með 13 stig í hálfleik. Kristófer Acox var einnig öflugur undir körfunni lengst af í kvöld og var með 10 stig í fyrri hálfleik.

KR-ingar hafa stillt að mestu upp íslensku liði í vetur og hafa lítið notað erlenda leikmenn það sem af er þessu keppnistímabili. Keegan Bell vermdi að mestu bekkinn í kvöld og skilaði litlu til liðsins. Grindvíkingar leikar hins vegar með tvo öfluga erlenda leikmenn og það sýndi sig í kvöld. Þrátt fyrir að Sigurður Þorsteinsson væri kominn í villuvandræði strax í upphafi þriðja leikhluta með fjórar villur þá leiddu gestirnir leikinn með 11 stigum fyrir lokaleikhlutann, 57-68.

Grindvíkingar héldu velli í lokaleikhlutanum þrátt fyrir að KR hefði sótt að þeim til að byrja með. Eftir að Finnur Atli Magnússon fór af velli með fimm villur misstu KR-ingar vindinn úr seglum sínum. Endaspretturinn var hins vegar nokkuð óvænt spennandi eftir að Helgi Magnússon setti niður tvo mikilvæga þrista. Það var hins vegar of lítið, of seint. Grindvíkingar sigldu sigrinum í hús og lokatölur urðu 80-87.

Helgi Magnússon var atkvæðamestur í liði KR með 20 stig. Kristófer Acox og Martin Hermannson komu næstir með 15 stig. Aaron Broussard var með 27 stig fyrir Grindavík og Samuel Zeglinski kom þar á eftir með 23 stig. Eftir leiki kvöldsins eru fjögur lið jöfn á toppnum með 12 stig og Grindavík þar á meðal. KR er hins vegar um miðja deild með 8 stig.

Þorleifur: „Hefðum rúllað yfir KR á góðum degi”

„Ég er sáttur með þennan sigur og mikilvægt að vinna en við vorum hreint út sagt arfaslakir,” sagði fyrirliði Grindavíkur, Þorleifur Ólafsson. „Það er hálf skrýtið að við skulum hafa unnið þennan leik. Það er hins vegar mikilvægt að vinna alla leiki og sérstaklega þegar það líður á tímabilið.”

„Það er alls ekki sjálfgefið að vinna á útivelli á móti KR og því er þetta mjög góður sigur. Mér fannst við hins vegar bara lélegir í kvöld og mjög mikið sem við getum bætt. Á góðum degi þá hefðum við rúllað yfir KR.”

Grindvíkingar voru illviðráðanlegir á síðasta tímabili en taktinn hefur stundum vatnað hjá liðinu í vetur. Þorleifur hefur ekki áhyggjur. „Það er ýmislegt sem við þurfum að skerpa á í varnarleiknum og líka í sókninni. Við erum ekki að láta boltann ganga allan tímann og dettum stundum í einstaklingsframtak. Það hafa verið margar breytingar hjá liðinu í vetur og auðvitað eðlilegt að það taki tíma að finna sama takt og í fyrra,” sagði Þorleifur að lokum.

visir.is