Grindavík sigraði Costa Blanca mótið á Spáni

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Knattspyrna

Stelpurnar í 3. flokki kvenna í knattspyrnu, sem í vetur voru afar duglegar við margskonar fjáraflanir, hafa undanfarna daga notað ávaxta erfiðis síns á Spáni þar sem þær kepptu á Costa Blanca mótinu og er skemmst frá því að segja að þær gerðu sér lítið fyrir og sigruðu mótið. Við óskum þessum efnilegum knattspyrnukonum að sjálfsögðu til hamingju með þennan sigur.

Fréttaritari Grindavík.net var á staðnum og hafa þeir gert mótinu góð skil:

„Grindavíkurstúlkur eru Costa blanca cup meistarar 2015 eftir að hafa sigrað Elche 2-1 í úrslitaleik. Leikurinn var jafn en Grindavík átti mun fleiri opin færi. Mikil barátta var í báðum liðum en okkar stelpur héldu einbeitingu allan leikinn.

Dröfn Einarsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins úr víti, mjög öruggt hjá henni undir mikilli pressu. Kristín Anítudóttir Mcmillan skoraði seinna mark Grindavíkur stuttu síðar úr glæsilegri aukaspyrnu. Lið Elche minkaði muninn en lengra komust þær ekki gegn frábæru og yfirveguðu liði Grindavíkur. Ein úr liði Elche fékk að líta rauða spjaldið í seinni hálfleik.

Sigurgleðin var mikil hjá okkar stelpum í leikslok. Frábæri ferð er nú að ljúka hjá þessum stelpum sem að hafa verið til fyrirmyndar innan vallar sem utan. Kristín Anítudóttir Mcmillan var kosin besti leikmaður úrslitaleiksins. Þjálfarinn Ægir Viktorsson er að ná því besta út úr hópnum. Fararstjórar í þessari ferð voru þau Bjarki Guðmundsson og Jóna Rut Jónsdóttir. Þjálfari og fararstjórar hafa náð að skapa gleði og baráttuanda sem til þarf til að vinna svona keppni. Grindavík.net óskar þeim öllum til hamingju með frábæran árangur.

Stelpurnar vilja koma á framfæri þakklæti til fyrirtækja og almennings í Grindavík sem gerðu þessa ferð að veruleika.“