Grindavík setti þristamet í Ljónagryfjunni

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Grindavíkurkonur lyftu sér upp af botni Domino’s deildar kvenna um helgina með öruggum og góðum sigri á Njarðvík á útivelli, 59-85. Grindavík setti 16 þrista í leiknum sem er það mesta sem skorað hefur verið í einum leik í deildinni í vetur. Þá héldur þær ofurkonunni Carmen Tyson-Thomas algjörlega í skefjum, en hún setti aðeins 19 stig í stað þeirra tæplega 40 sem hún hefur verið að skora að meðaltali í vetur.

Karfan.is fjallaði um leikinn:

„Grindvíkingar ráku í dag af sér slyðruorðið með þvílíkum látum þegar gular skelltu Njarðvíkingum í Ljónagryfjunni í Domino’s-deild kvenna. Lokatölur 59-85 Grindavík í vil og settu gestnirnir nýtt met á leiktíðinni með því að skora 16 þriggja stiga körfur!

Njarðvíkingar sem voru að koma af góðum útisigri gegn Stjörnunni sáu lítt til sólar og Carmen Tyson-Thomas var nokkuð fjarri því sem hún hefur sýnt á tímabilinu, brenndi t.d. af öllum 13 þriggja stiga skotum sínum í leiknum og Grindvíkingar héldu Njarðvíkingum í 59 stigum sem er það minnsta sem lið hefur skorað gegn Grindavík í deildinni þetta tímabilið.

Grindvíkingar voru 10 stigum yfir, 16-26 eftir fyrsta leikhluta og leiddu svo 31-44 í hálfleik en það var s.s. ekkert óvinnandi staða. Góð vörn hjá gestunum á meðan Carmen átti erfitt uppdráttar sóknarlega Njarðvíkurmegin. Í þriðja leikhluta hrundi spilaborg Njarðvíkinga endanlega. Grindvíkingar skelltu í lás í vörninni, röðuðu niður þristum og Ingunn Embla skellti t.d. í þrjá með stuttu millibili og þriðji hluti fór 3-25 fyrir Grindavík!

Eftirleikurinn var eins og gefur að skilja auðveldur fyrir Grindavík og lokatölur 59-85 Grindavík í vil. Njarðvíkingar bitu frá sér í fjórða, unnu hann 25-16 en skaðinn var löngu skeður.

Með sigrinum komst Grindavík af botninum, jafnaði Hauka að stigum en hefur betur innbyrðis. Njarðvíkingar eru áfram í 4. sæti með 10 stig. Ashley Grimes gerði 26 stig, tók 11 fráköst og gaf 5 stoðsendingar í liði Grindavíkur og þær Petrúnella Skúladóttir og Ingunn Embla Kristínardóttir bættu báðar við 17 stigum. Hjá Njarðvík var Carmen Tyson-Thomas stigahæst með 19 stig og 10 fráköst og Soffía Rún Skúladóttir bætti við 11 stigum.“

Tölfræði leiksins

Viðtal við Petrúnellu eftir leik: