Grindavík sækir Stjörnuna heim

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Grindavíkingar fá ekki mikinn tíma til að sleikja sárin eftir bikartapið gegn KR því okkar menn sækja Stjörnuna heim í kvöld í Garðabæ kl. 19:15 í úrvalsdeildinni. Stjarnan mætir með glænýjan liðsmann í leikinn, Renato Lindmets, sem lék með þeim reyndar á síðustu leiktíð og er feiki öflugur.

,,Ég tel það vera augljóst af hverju við bætum við okkur, við viljum vera með í bardaganum um titilinn og gerum okkur grein fyrir því að til þess verður að hafa breiðari hóp. Við misstum snemma stóran póst í haust og getum ekki endalaust treyst á 16 ára gutta til að vera inná á lokamínútunum í spennandi leikjum eins og undanfarið,” sagði Teitur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar við Karfan.is í dag.

,,Renato var ekki alveg sáttur með gang mála í Portúgal og fyrir um tveimur dögum síðan þá ákvað hann að segja upp og lét okkur vita í framhaldinu. Fram að því stóð ekkert itl en þegar svona gerist og engin áhætta fylgir í pakkanum var þetta engin spurning. Honum líður vel á Íslandi og okkur líður vel með honum,” sagði Teitur en Lindmets verður því klár í slaginn með Garðbæingum á fimmtudagskvöld þegar topplið Grindavíkur mætir í Ásgarð í uppgjöri toppliðanna.

Eins og flestir vita hefur Jovan Zdravevski verið að glíma við meiðsli allt tímabilið og ekki útséð með framhaldið að svo stöddu.