Íslenskir körfuknattleiksunnendur biðu eflaust margir með öndina í hálsinum eftir leik Grindavíkur og Þórs Þorlákshöfn á föstudaginn. Tilefnið var endurkoma hins bandaríska J’Nathan Bullock í íslenskan körfubolta en hann lék síðast með Grindavík vorið 2012, og hefur síðan þá átt farsælan atvinnumannaferil víða um heim. Ekki reyndi þó mikið á Bullock í þessum leik sem varð algjör einstefna af hendi Grindvíkinga nánast frá fyrstu mínútu, lokatölur 83-104, og mega Þórsarar teljast heppnir að tapið varð ekki stærra.
Grindavík leiddi örugglega eftir fyrsta leikhluta, 21-35, og virtust heimamenn ekki eiga mörg svör við þeirra leik. Grindvíkingar voru mjög öruggir í öllum sínum aðgerðum og virtust vera í virkilegum góðum takti. Í 4. leikhluta var munurinn á liðunum orðin 30 stig og leyfði Jóhann því yngri og óreyndari leikmönnum að klára leikinn. Þorsteinn Finnbogason nýtti það tækifæri vel og lét þristunum rigna eins og honum einum er lagið, en hann setti 5 slíka í leiknum.
J’Nathan Bullock lék aðeins rúmar 23 mínútur í leiknum, en það dugði honum þó til að verða stigahæstur Grindvíkinga með 19 stig. Bætti hann við 7 fráköstum, flestum framlagsstigum 23 og einnig bestu +/- tölunni, +30. Bullock virðist vera í fantaformi og verður gaman að fylgjast með honum komast inn betur og betur inn í leik liðsins.
Bullock var þó ekki eini Grindvíkingur sem snéri aftur þetta kvöld, því Davíð Ingi Bustion hefur einnig tekið fram skóna á ný eftir smá hlé. Davíð lék með Grindavík 2013 en skipti síðan yfir í Fjölni og tók sér síðar pásu frá körfubolta. Var endurkomu Davíðs fagnað vel í stúkunni enda vita stuðningsmenn Grindavíkur vel hvað Davíð kemur með inn á völlinn, óþreytandi baráttu, jákvæðni og afgerandi sigurvilja. Báðir þessir leikmenn unnu titla síðast þegar þeir léku með Grindavík, og vonandi verður engin breyting á núna.