Grindavík opnaði knattspyrnusumarið með sigri

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Knattspyrna

Grindvíkingar ákváðu að breyta útaf vananum og tóku sig til og unnu fyrsta leik Íslandsmótsins sem fram fór á föstudaginn, en slíkt gerist ekki á hverju sumri. Grindavík tók á móti Haukum í hörkuleik og lentu undir snemma leiks en komu sterkir til baka og unnu að lokum góðan sigur, 3-2. Mörk Grindavíkur skoruðu þeir Alexander Veigar Þórarinsson, Hákon Ívar Ólafsson og Gunnar Þorsteinsson. 

Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, var í viðtalið við fótbolta.net eftir leik þar sem hann sagði að það hefði verið mikill léttir að landa sigri í fyrstu umferð, gegn sterku Haukaliði:

„Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur viðurkenndi að það hafi verið mikill léttir að vinna fyrsta leik sumarsins í kvöld. Grindavík sigruðu Hauka á heimavelli 3-2 eftir að hafa lent undir í byrjun leiks.

„Það var mikilvægt fyrir okkur að ná sigri í fyrsta leik á móti frábæru og vel skipulögðu Haukaliði. Maður veit það þegar maður er að mæta Luka og félögum að við erum að fara í slagsmál. Það er mjög mikill léttir að klára þetta.”

Haukar komust yfir eins og fyrr segir en Grindvíkingar svöruðu og voru komnir tveimur mörkum yfir eftir klukkutíma leik.

„Þetta er í raun eina sem þeir ógna okkur þannig séð í fyrri hálfleik. Þeir voru með langa bolta og slagsmál. Við svöruðum vel fyrir okkur og ég er mjög ánægður hvernig við brugðumst við að lenda undir. Það var mikil spenna og spennustigið var mjög hátt. Þess var ég ánægður og með fótboltann sem við spiluðum uppúr því.”

„Við komum gríðarlega vel stefndir og fórum vel yfir það sem við ætluðum að gera. Ég hefði viljað fá fleiri mörk á þessum kafla. Svo komast þeir inn í leikinn og þá tekur stressið við. Sem betur fer náðum við að sigla þessu heim,” sagði Óli Stefán í viðtali við Fótbolta.net eftir leik.“