Grindavík og Þór berjast um Íslandsmeistaratitilinn

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Grindavík sigraði Stjörnuna í fjórðu rimmu liðanna með tveggja stiga mun, 79-77, eftir æsispennandi lokasprett og mætir Þór í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn. Grindvíkingar leiddu lengst af í kvöld, en Stjarnan gerði heiðarlega tilraun til þess að vinna leikinn undir restina en það féll ekki með þeim í kvöld og eru þeir því komnir í sumarfrí.

Það voru deildarmeistarar Grindavíkur sem hófu leikinn betur í dag, en 9 af fyrstu 13 stigum þeirra komu úr þriggja stiga skotum. Það hefur loðið við Grindvíkinga það sem af er þessari seríu að vera að hitta illa fyrir utan en það átti ekki við um upphaf leiksins í dag. Stjörnumenn voru þó aldrei langt undan, með Justin Shouse í fararbroddi. Þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af 1. leikhluta varð Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur fyrir því óláni að ökklabrotna og gera þurfti stutt hlé á leiknum á meðan hann var fluttur í sjúkrabíl. Ólafur virtist þó borubrattur þegar hann klappaði til áhorfenda á leið í sjúkrabílinn. Meiðsli Ólafs virtust hafa verri áhrif á Garðbæinga en Grindvíkingar náðu 9 stiga forskoti áður en 1. leikhluta lauk, 17-26. Vörn Stjörnunar, sem hefði verið svo góð í síðustu tveimur leikjum, var eins og gatasigti og voru leikmenn Grindavíkur að salla niður skotunum, eins og þeir hefðu aldrei gert annað. Stjörnumenn komu einbeittari til leiks í 2. leikhluta en þeir voru þó að gera sig seka um sofandahátt í vörninni og sérstaklega þegar kom að fráköstum. Um miðbik 2. leikhluta náðu gestirnir frá Grindavík 10 stiga forystu, 39-29 og þá tók Teitur Örlygsson leikhlé. J’Nathan Bullock, í liði Grindavíkur, var gjörsamlega frábær á þessum kafla fyrir gestina en hann gerði 21 stig í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var 48-36, Grindvíkingum í vil og ljóst að róðurinn yrði þungur fyrir Garðbæinga í síðari hálfleik. Skotnýting þeirra í fyrri hálfleik var langt frá því að vera góð, þeir voru 0/6 fyrir utan og aðeins 55% af vítalínunni. Hittni Grindvíkinga var hinsvegar betri en hún hafði verið alla seríuna og það er eitthvað sem þeir gátu glaðst yfir. Stjörnuliðinu vantaði framlag frá fleiri leikmönnum en Justin Shouse og Keith Cothran voru búnir að gera 26 af 36 stigum þeirra í fyrri hálfleik.

Grindvíkingar hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti og ætluðu sér greinilega að kafsigla heimamenn strax í byrjun. Þeir náðu mest 17 stiga forskoti en þá kom góður kafli hjá Garðbæingum. Rentao Lindmets minnkaði muninn niður í 7 stig af vítalínunni en hann hafði vaknað til lífsins í upphafi síðari hálfleiks. Skipulagið sem Teitur hefur lagt upp með í hálfleik var greinilega einfalt: þétta vörnina í teignum og hleypa þeim frekar í þriggja stiga skot. Hittni Grindvíkina í fyrri hálfleik, fyrir utan, var 39% en það datt fljótlega niður um nokkur prósent. Munurinn á liðunum, þegar 3. leikhluta lauk var 8 stig, 57-65, og því enn allt mögulegt. Stjörnumenn höfðu þétt vörn sína í hálfleik og Renato Lindmets var farinn að leggja Shouse og Colthran lið í sóknarleiknum. Liðin skiptust á að skora í upphafi síðari hálfleiks, og hefði Jovan Zdravevski getað minnkað muninn niður í 4 stig með því að setja niður galopinn þrist. Honum brást bogalistinn, eins og oft áður í þessum leik, en Jovan var 0/8 í skotum á þessum tímapunkti. Það kom þó að því að Jovan setti skot niður og stórt var það, þristur til að minnka muninn í 4 stig þegar 4 mínútur voru eftir. Grindvíkingum gekk illa að skora og fór svo að J’Nathan fékk á sig ásetningsvillu fyrir brot á Fannari Helgasyni þegar tvær og hálf mínúta voru eftir. Fannar setti bæði skotin niður og Renato Lindmets skoraði síðan með sniðskoti og fékk vítaskot. Skotið geigaði en Keith Cothran tók frákstið og skoraði. Stjarnan var komin yfir, 74-72, í fyrsta skiptið frá því 2-0. Páll Axel Vilbergsson setti niður ótrúlegan þrist þegar 40 sekúndur voru eftir og kom gestunum einu stigi yfir. Á þessum tímapunkti virtist þakið ætla að rifna af Ásgarði og stóðu áhorfendur upp þegar að Rentao Lindmets fékk tvö vítaskot. Hann skoraði aðeins úr öðru þeirra, 77-77. Grindvíkingar fóru í sókn, Páll fékk galopið skot sem geigaði en eftir mikinn atgang í teignum um frákastið fór svo að Sigurður Þorsteinsson kom Grindavík tveimur stigum yfir, 79-77 þegar 7 sekúndur voru eftir af leiknum. Stjarnan teiknaði upp í kerfi, Shouse keyrði á körfuna en uppskar aðeins innkast, við litla hrifningu heimamanna, þegar hálf sekúnda var eftir. Þessa hálfu sekúndu náðu heimamenn ekki að nýta sér og fór Grindavík með sigur að hólmi, 77-79. Þeir eru því komnir í úrslitaeinvígið.

Það er því miður að annað þessara liða þurfi að detta út úr keppninni á þessum tímapunkti. Grindvíkingar sýndu hversu massíft lið þeir eru með í kvöld og þegar J’Nathan Bullock er í sama ham og hann var í fyrri hálfleik í kvöld, er enginn sem ræður við hann. Þeir verða að teljast líklegir kandídatar að lyfta dollunni stóru en það eru þó nokkrir hlutir sem liðið þarf að slípa saman. Stjörnumenn hófu leik í kvöld ekki nægilega vel og varð það þeim að falli. Of fáir leikmenn voru að leggja sitt á vogarskálarnar til að byrja með en áhlaup þeirra undir restina er aðdáunarvert og hefði sigurinn getað dottið báðu megin. Tveir stórir dómar féllu þeim í óhag á síðustu 10 sekúndum leiksins. Það er synd að sjá Stjörnuna fara í sumarfrí á þessum tímapunkti en svona er boltinn og Grindvíkingar voru betri í þessari seríu.

Stig Stjörnunar: Justin Shouse 22/4 fráköst/6 stoðsendingar, Keith Cothran 21, Renato Lindmets 18/11 fráköst, Marvin Valdimarsson 8/6 fráköst, Jovan Zdravevski 3, Fannar Freyr Helgason 2/7 fráköst, Sigurjón Örn Lárusson 2, Dagur Kár Jónsson 1

Stig Grindavíkur: J’Nathan Bullock 26/11 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 15/13 fráköst, Þorleifur Ólafsson 10, Jóhann Árni Ólafsson 9/6 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 7/4 fráköst, Giordan Watson 6/5 fráköst/11 stoðsendingar, Ryan Pettinella 6

Sport.is

Mynd: Öflugir stuðningsmenn Grindavíkur. Þarna má m.a. sjá leikmenn knattspyrnuliðs Grindavíkur, Róbert bæjarstjóra og bæjarfulltrúana Kristínu Maríu og Bryndísi.