Grindavík missteig sig í Þorlákshöfn

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Grindavík tapaði fyrir Þór Þorlákshöfn í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum úrvalsdeildar karla og þar með er staðan jöfn í einvígi liðanna, hvort lið hefur unnið einn leik. Óttast er að Þorleifur Ólafsson fyrirliði liðsins hafi slitið krossbönd í leiknum og verði ekki meira með. 

 

Þórsarar er erfiður heim að sækja og hraður sóknarleikur þeirra gerði Grindavíkurliðinu erfitt fyrir. En sigur heimamanna var sanngjarn en Grindvíkingar voru afar ósáttir við dómgæsluna í leiknum.

Þór Þ.-Grindavík 98-89 (25-23, 29-17, 15-25, 29-24)

Grindavík: Jón Axel Guðmundsson 21, Earnest Lewis Clinch Jr. 20/6 fráköst/6 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 15, Ólafur Ólafsson 14/7 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 9/7 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 6/7 fráköst/6 stoðsendingar, Hilmir Kristjánsson 2, Þorleifur Ólafsson 2, Nökkvi Harðarson 0, Hinrik Guðbjartsson 0, Daníel Guðni Guðmundsson 0, Kjartan Helgi Steinþórsson 0.

Sverrir Þór Sverrison, þjálfari Grindvíkinga: Dómgæslan var skrípaleikur

Þjálfari Grindvíkinga var afar ósáttur þegar blaðamaður Vísis hitti á hann í leiks lok.

“Við byrjuðum leikinn mjög illa en náðum að skipuleggja okkur í hálfleiknum og vorum mikið betri í seinni hálfleik. En það var bara ekki nóg í kvöld. Það er alltof dýrt að byrja að spila eins og menn þegar svona langt er liðið á leikinn.” sagði Sverrir.

“Siggi Þorsteins fær síðan tvær mjög ódýrara villur í upphafi seinni hálfleiks og var ekkert með það sem eftir lifði leiks. Það var líka mjög dýrt enda kláraði Raggi þetta fyrir þá. Það er mjög erfitt að verjast honum þegar okkar stærsti maður er farinn út af.” bætti Sverrir við.

Þorleifur Ólafsson fór meiddur af velli strax í fyrsta leikhluta og tók ekki frekari þátt í leiknum. Sverrir telur meiðslin vera afar alvarleg en óttast er að krossband í hné sé slitið sem þýðir að þátttöka hans þetta tímabilið, að minnsta kosti, er lokið. Þorleifur lét það þó ekki aftra sér frá því að segja dómurunum til meintra synda sinna í leikslok.

“Já það fer þarna eitthvað á milli þeirra, Björgvins og Lalla (Þorleifs). Ég heyrði það ekki nákvæmlega en sá að hann fékk brottrekstrarvillu sem skiptir þó kannski ekki öllu máli enda líta meiðslin hans ansi alvarlega út.” sagði Sverrir.

Grindvíkingar voru allir sem einn afar ósáttir við frammistöðu dómara tríósins í kvöld.

“Þetta var bara hálfgerður skrípaleikur hjá þeim, endalausar villur og mér fannst þetta bara detta út í vitleysu. Mér sýndist Þórsararnir ekki heldur vera sáttir við þá. En staðan er bara 1-1 í þessu einvígi þó það hafi mikið gengið á. Nú þurfum við bara að huga að næsta leik á fimmtudaginn.” bætti Sverrir við að lokum.

Viðtal: Vísir.is