Grindavík meistari meistaranna

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Grindavík hafði í gærkvöld betur gegn KR 87-85 í hinni árlegu Meistarakeppni KKÍ og færa verður þennan leik til bókar sem frábæra skemmtun sem lofar góðu fyrir komandi tímabil. Leikurinn var hnífjafn og spennandi og það var Páll Axel Vilbergsson sem tryggði grindvískan sigur með ótrúlegri þriggja stiga körfu í þann mund sem leiktíminn rann út. Grindavíkurliðið lítur vel út en í liðið vantaði nýja Kanann þannig að á pappírnum eru okkar menn gríðarlega sterkir fyrir veturinn.

Grindvíkingar hófu leikinn í DHL-höllinni í gærkvöld af talsverðum krafti og virtust á upphafsmínútunum ætla að hafa tiltölulega lítið fyrir hlutunum. KR-ingar voru heillum horfnir, hreinlega taktlausir og ekki alveg búnir að átta sig á því að búið væri að flauta til leiks. Þeir tóku leikhlé í stöðunni 16-8 og það skilaði sér ljómandi vel; KR skoraði níu næstu stigin í leiknum og breytti stöðunni í 17-16. Upp frá því héldust liðin í hendur nánast allt til loka, Grindvíkingar tóku reyndar nokkrar rokur og komust þetta sex til átta stigum yfir, en KR-ingar svöruðu að bragði og sáu til þess að leikurinn var hin ágætasta skemmtun í alla staði. Grindvíkingar unnu fyrsta leikhlutann með tveggja stiga mun, KR-ingar þann næsta með eins stig mun og staðan í hálfleik var 44-43 fyrir Grindavík. KR-ingar náðu enn að saxa á forskotið og reyndar jafna metin áður en fjórði og síðasti leikhlutinn hófst, 67-67, og ljóst var að hvergi yrði slakað á fyrr en í fyrsta lagi eftir að búið væri að flauta til leiksloka. Jafnt var á öllum tölum fram á lokasekúnduna, bæði lið sýndu lengstum fín tilþrif, létu ekki spennuna og baráttuna bera sig ofurliði. Grindvíkingar voru stigi yfir, 84-83, þegar rétt tæpar 26 sekúndur voru til leiksloka, en klúðruðu þá klaufalega innkasti og þar með sóknarmöguleika. David Tairu skoraði úr tveimur vítaskotum sem hann fékk eftir að brotið hafði verið á honum, 85-84 fyrir KR, og síðasta sókn Grindvíkinga endaði með innkasti þegar tæp sekúnda var eftir. Einhvern veginn í ósköpunum tókst gestunum að koma boltanum í hendurnar á Páli Axel, sem tók snerpuþrist vel fyrir utan línu og hitti ekkert nema net. Ótrúlegur endir á frábærum leik og sigurinn Grindvíkinga.

 

Bæði lið sýndu ljómandi góða takta í þessum leik, sem svo sannarlega lofar góðu fyrir það sem koma skal í vetur. Grindvíkingar hafa styrkt lið sitt mjög skynsamlega og eiga enn eftir að bæta í, þegar nýr bandarískur kraftframherji mætir til leiks verða þeir illviðráðanlegir. Giordan Watson er frábær leikstjórnandi og nýju mennirnir, Jóhann Árni og Sigurður Þorsteins, bæta nýjum víddum í liðið, einkum sóknarlega. Liðsheildin hjá Grindavík er sterk, bræðurnir Þorleifur og Ólafur Ólafssynir algjörlega ómetanlegir og liðið til alls líklegt, að sögn sport.is

Grindavik: Giordan Watson 24/7 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 14/5 fráköst/3 varin skot, Jóhann Árni Ólafsson 13, Páll Axel Vilbergsson 12/7 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 8/9 fráköst/4 varin skot, Ómar Örn Sævarsson 7/9 fráköst/3 varin skot, Þorleifur Ólafsson 6, Ármann Vilbergsson 3.

KR 85-87 Grindavík (23-25; 20-19; 24-23; 18-20).

Myndir: sport.is