Grindavíkurkonur enduðu deildarkeppnina á jákvæðum nótum í gær þegar þær völtuðu yfir lið Ármanns hér í Mustad-höllinni, en lokatölur leiksins urðu 76-43 Grindvíkingum í vil. Þetta var annar sigur liðsins í röð en þær unnu einnig Hamar í Hveragerði á dögunum. Annan leikinn í röð var það Ólöf Rún Óladóttir sem varð stigahæst Grindvíkinga en hún skoraði 27 stig á tæpum 20 mínútum. Næst kom Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir með 12 stig og systir hennar Natalía skoraði 10.
Þetta unga og efnilega lið Grindavíkur hefur gengið í gegnum ýmislegt á þessu tímabili, þjálfaraskipti og þá missti liðið bæði sinn sterkasta leikmann á miðju tímabili og erlendur leikmaður liðsins hvarf einnig á braut. Þrátt fyrir það hafa ungir leikmenn liðsins staðið af sér mótlætið og sýnt það í verki að Grindvíkingar eiga mjög efnilegt kvennalið sem mun án vafa láta mikið að sér kveða á næstu árum.
Tímabilið er þó ekki búið en nú tekur við úrslitakeppnni 4 efstu liða deildarinnar þar sem Grindavík mætir deildarmeisturum KR, en KR-ingar eru ósigraðir í ár.