Grindavík mætir Skallagrími í átta liða úrslitum

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Grindavík sigraði Tindastól 97-91 á Sauðárkróki í lokaumferð úrvalsdeildar karla í körfubolta. Deildarmeistarar Grindavíkur mæta Páli Axel Vilbergssyni og félögum í Skallagrími í átta liða úrslitum. Tapið Tindastóls hafði í för með sér að liðið féll úr úrvalsdeildinni.

Leikurinn var frekar jafn allan tímann en sigur Grindavíkur verðskuldaður.

Nú bíður liðsins það skemmtilega verkefni að verja Íslandsmeistaratitilinn og fyrirliði liðsins á síðustu leiktíð, Páll Axel Vilbergsson, verður án efa verðugur andstæðingur í þeirri rimmu.

Grindavík: Samuel Zeglinski 29/6 fráköst, Aaron Broussard 27/6 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 11/5 stoðsendingar, Þorleifur Ólafsson 9, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 7/10 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 6/4 fráköst, Ryan Pettinella 5/4 fráköst, Daníel G. Guðmundsson 3.

Bryndís kjörin í varastjórn KKÍ

Körfuknattleiksþingi KKÍ 2013 er lokið og hefur ný stjórn verið kjörin. Hannes S. Jónsson var endurkjörinn formaður og með honum í stjórn sitja Erlingur Hannesson, Eyjólfur Þór Guðlaugsson, Guðbjörg Norðfjörð, Guðjón Þorsteinsson, Páll Kolbeinsson og Rúnar Birgir Gíslason.

Bryndís Gunnlaugsdóttir, Einar Karl Birgisson og Lárus Blöndal voru svo kjörin í varastjórn. Lárus Ingi Friðfinnsson og Guðjón Guðmundsson gáfu ekki kost á sér til endurkjörs.

Á heimasíðu KKÍ segir:

Fjölmörg mál voru til umræðu á þinginu og voru miklar umræður í nefndum á föstudagskvöldið. Kosningar fóru svo fram á laugardag og voru miklar umræður þar um ákveðin mál og jafnar kosningar.

Meðal breytinga var samþykkt á fjölda erlendra leikmanna í efstu deild karla og frá og með næsta tímabili má einungis vera einn erlendur leikmaður inn á vellinum í einu. Verður þá sama fyrirkomulag í efstu deild karla, efstu deild kvenna og næst efstu deild karla.

Þá var fyrirkomulagi í fyrirtækjabikar breytt og verður hann nú leikinn fyrir upphaf Íslandssmóts og er átta liða úrslitum bætt við.

Stúlknaflokkur og 11. flokkur verður leikinn í deildarkeppni í stað fjölliðamóts áður.

Þá komu meðsl annars fram tvær þingsályktunartillögur.

Þingsályktunartillaga:
Körfuknattleiksþing 15.-16. mars 2013 beinir því til stjórnar KKÍ að skoða möguleika á að bæta keppnisfyrirkomulagi í MB 11ára, 7. og 8.flokk. Stjórnin skal skipa nefnd á fyrsta fundi eftir körfuknattleiksþing sem tekur málefnið til umfjöllunar og kemur með tillögu til stjórnar.
Sé það niðurstaða nefndarinnar og stjórnar KKÍ að breyta núverandi fyrirkomulagi skal stjórn KKÍ gera þær breytingar á reglugerðum og tilkynna aðildarfélögum sem allra fyrst.
Þingsályktunartillaga

Körfuknattleiksþing 15.-16. mars 2013 hafnar alfarið framkomnum hugmyndum um stofnun Happdrættisstofu.
Ennfremur hvetur þingið íþróttahreyfinguna til þess að standa vörð um Íslenska getspá.