Grindavík tryggði sér í gær sigur í Lengjubikarkeppni karla með því að leggja Keflavík að velli í stórskemmtilegum, hádramatískum og spennandi úrslitaleik, 75-74. Keflvíkingar höfðu sjö stiga forystu í hálfleik og voru yfir lengstum í síðari hálfleik, en frábær endasprettur Grindvíkinga, þar sem hugarró og skynsemi voru í aðalhlutverki, tryggðu grindvískan sigur.
Suðurnesjaliðin Keflavík og Grindavík buðu upp á ljómandi skemmtilegan úrslitaleik Lengjubikarkeppninnar í DHL-höllinni í dag. Bæði lið þurftu að hafa talsvert fyrir hlutunum í undanúrslitaleikjum gærkvöldsins og sigur Grindavíkur á Snæfelli reyndist dýrkeyptur; Páll Axel Vilbergsson meiddist undir lok fyrri hálfleiks, lék ekkert í síðari hálfleik og sat borgaralega klæddur fyrir aftan varamannabekk Grindvíkinga í dag.
Grindvíkingar hófu úrslitaleikinn ágætlega, náðu undirtökunum tiltölulega snemma og virtust á köflum hafa ansi hreint lítið fyrir hlutunum. J´Nathan Bullock var býsna áberandi í leik Grindvíkinga á meðan Charles Parker og Steven Dagustino fóru fyrir Keflavíkurliðinu og eftir fyrsta leikhlutann var Grindavík fimm stigum yfir. Svipaður taktur var í leiknum fram í miðjan annan leikhlutann eða þar um bil, en þá breyttu Keflvíkingar varnarleiknum sínum lítillega og Grindvíkingar keyrðu sig í alls kyns vandræði. Stemmningin var öll Keflavíkurmegin og hægt og bítandi náðu Keflvíkingar undirtökunum, komust yfir og fögnuðu hverri körfu eins og úrslitin væru ráðin. Keflavík seig fram úr og hafði sjö stiga forystu í hálfleik, 42-35.
Jafnræði var með liðunum meira og minna allan síðari hálfleikinn, Grindvíkingar liðu svolítið fyrir það að Bullock var kominn með fjórar villur og sat því á afturendanum stóran hluta hálfleiksins og ólíklegt er að hann skili marktæku framlagi við þær aðstæður. Grindavík sótti talsvert að Keflavík, en Keflvíkingar voru komnir með blóðbragð í munninn og börðust fyrir hverjum einasta bolta. Keflavíkurpiltarnir hefur líka öðlast ágætan eiginlega á ný undir stjórn Sigurðar Ingimundarsonar; þeir eru meira en til í svolítinn barning og gefa ekki tommu eftir. Það getur reynst bölvanlegt að elta þá uppi í leik sem þessum, Keflvíkingar þekkja það að vinna titla og hugnast það ágætlega að vera í forystu. Lokamínútur leiksins voru æsispennandi og skemmtilegar, Grindavík jafnaði metin þegar tæpar þrjár mínútur voru til leiksloka og á lokasekúndunum mátti vart á milli sjá. Keflvíkingar, sem voru í raun komnir með tak á leiknum og gerðu fullt af fínum hlutum, tóku rangar ákvarðanir, náðu ekki að keyra inn á teig og skora af stuttu færi og köstuðu möguleikanum svolítið frá sér. Grindavík fagnaði að lokum eins stigs sigri og það verður ekki tekið af þeim að karakterinn í liðinu er til eftirbreytni. Helgi Jónas var í því á hliðarlínunni að róa mannskapinn og keyra í gang svolitla skynsemi og það skilaði ljómandi fínum árangri. Líklega hafa einhverjir körfuboltaspekingar reiknað með stærri og auðfengnari sigri Grindvíkinga, sem í gær sýndu að þeir geta líka bitið á jaxlinn við mótlæti og sótt gæðin sem þarf til að vinna jafna leiki, en þeir hinir sömu hafa líklega misreiknað Keflavíkurliðið. Keflvíkingar nærast á úrslitaleikjum og eru með hörkugott lið sem verður betra eftir því sem á tímabilið líður.
Grindavík: J’Nathan Bullock 27/11 fráköst, Giordan Watson 15/9 fráköst/6 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 9/6 fráköst, Ólafur Ólafsson 9/4 fráköst, Þorleifur Ólafsson 8/5 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 4/4 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 3.
Grindavík 75-74 Keflavík (20-15, 15-27, 21-18, 19-14)
Mynd og umf.: Sport.is