Grindavík lagði Íslandsmeistarana í framlengdum leik

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Grindavíkurkonur tóku sig til í gær og skelltu Íslandsmeisturum Snæfells í framlengdum leik, en lokatölur urðu 69-66. Grindavík tók afgerandi forystu í upphafi leiks en hægt og bítandi unnu gestirnir sig inn í leikinn og mátti minnstu muna að þeir færu með sigur af hólmi í venjulegum leiktíma. 

Þeir sem fylgdust með leiknum á tölfræðivef KKÍ voru sennilega svekktir því samkvæmt honum var leik lokið með sigri Snæfells 55-58 en í raun jafnaði Ashley Grimes leikinn með þriggja stiga körfu þegar 3 sekúndur voru til leiksloka og þurfti því að framlengja. Þar sýndi Ashley styrk sinn en hún skoraði öll stig Grindavíkur í framlengingunni nema eitt.

Grindavík er því aftur komi á beinu brautina og tekst vonandi að byggja ofan á þennan árangur en næsti leikur er útileikur gegn Stjörnunni 2. nóvember. 

Ashley Grimes var stigahæst Grindvíkinga í leiknum, en hún skoraði 24 stig og tók 16 fráköst. Petrúnella kom næst með 13 stig og 11 fráköst.

Tölfræði leiksins

Mynd: Karfan.is